Nemendur leggja ýmislegt á sig til að styrkja gott málefni í góðgerðarviku. Mynd: skjáskot af fésbók…
Nemendur leggja ýmislegt á sig til að styrkja gott málefni í góðgerðarviku. Mynd: skjáskot af fésbókarsíðu Hugins

Góðgerðarvika stendur nú yfir í Menntaskólanum á Akureyri þar sem nemendur standa fyrir fjársöfnun til styrktar góðu málefni með söfnun áheita. Sá háttur er jafnan hafður á í aðdraganda vikunnar að nemendur kjósa um það hver skuli njóta góðs af söfnuninni. Kosið er á milli nokkurra vel valinna góðgerðarmála. Að þessu sinni kusu nemendur að láta söfnunarféð renna til göngudeildar Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann á Akureyri.

Rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri hófst árið 1993. Deildin hefur síðan þá sinnt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á Norðurlandi. Mikil óvissa hefur ríkt um rekstur deildarinnar undanfarin misseri þar sem erfiðlega hefur gengið að tryggja fjármagn til rekstrarins. Af þeim sökum var deildinni lokað þann 1. mars síðastliðinn.

Á fésbókarsíðu skólafélags MA segir að ekki hafi náðst samningar „um fjármagn fyrir deildina en nú standa yfir samningaviðræður milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ. Allur peningur sem myndi safnast færi í að fjármagna göngudeildina hér fyrir norðan svo að hún geti opnað sem fyrst aftur.“

Markmið nemenda er að safna einni milljón króna. Til að ná því markmiði þurfa nemendur að leggja ýmislegt á sig og fara út fyrir þægindarammann. Áhugasamir geta kynnt sér hinar ýmsu áskoranir sem nemendur taka sér fyrir hendur í vikunni á fésbókarsíðu skólafélagsins Hugins.

Við óskum krökkunum velfarnaðar í viðleitni sinni til að leggja góðu málefni lið og hvetjum alla til að sýna stuðning sinn í verki. Nemendur taka við frjálsum framlögum. Hægt er að leggja inn á reikning 162-15-382074, kt. 470997-2229.