Mynd af Hótel Oddeyri í bakgrunni er tekin af Hallgrími Einarssyni árið 1906. Rétthafi er Minjasafni…
Mynd af Hótel Oddeyri í bakgrunni er tekin af Hallgrími Einarssyni árið 1906. Rétthafi er Minjasafnið á Akureyri. Annað myndefni: Kristín Eggertsdóttir, Jónas frá Hriflu, Grundarbíllinn og kort af Akureyri frá 1809 unnið af Frisak og Scheel.

Í áfanganum saga nýaldar „ferðast“ nemendur um tímabil í sögu mannkyns sem kennt er við nútíma. Ferðalagið hefst í frönsku byltingunni árið 1789 og nær fram til líðandi stundar. Áfanginn er beint framhald af sögu fornaldar og miðalda.

Á önninni sem nú er senn að ljúka glímdu nemendur í 2. bekk við álitamál frá 19. og 20. öld og reyndu að varpa ljósi á gamlar ráðgátur frá þeim tíma. Meðal þess sem nemendur rannsökuðu var dvöl landmælingamannanna Frisak og Scheel á Akureyri árið 1809, húsbrunarnir á Akureyri í upphafi 20. aldar, Grundarbíll Magnúsar Sigurðssonar árið 1907, kosning Kristínar Eggertsdóttur í bæjarstjórn Akureyrar árið 1911 og brottvikning sjúklings og læknis af sjúkrastofnunum árið 1930. Eitt og annað áhugavert kom fram í dagsljósið, t.a.m. fundust yfir 100 ára gamlar hústeikningar af Hótel Oddeyri sem brann árið 1908 og Jensensbauk sem brann fyrir jólin 1901.

Auk kennara höfðu nemendur sérstakan álitsgjafa sér til halds og trausts meðan á vinnunni stóð. Álitsgjafar voru Arnar Birgir Ólafsson, Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Logi Einarsson, Rannveig Oddsdóttir og Þorgerður Guðlaugsdóttir. Framlag álitsgjafanna var mikilvægt þegar kom að úrvinnslu krakkanna og því rétt að nota tækifærið hér til að koma á framfæri þakklæti til þeirra.