Hafdís Inga segir frá Íslandi í Norrköping
Hafdís Inga segir frá Íslandi í Norrköping

MA hefur mörg undanfarin ár tekið þátt í samstarfsverkefni með Hagagymnasiet í Norrköping í Svíþjóð og fengið til þess styrk frá Nordplus. Verkefnið snýst um að kynna nemendum norræna menningu og tungumál og eru nýjar áherslur í hvert sinn. Í ár var félagsleg sjálfbærni áhersluatriði hjá Nordplus en hún gengur í einföldu máli út á að við eigum öll rétt á að líða vel. Í október kom Jennica Petré frá Svíþjóð og hitti alla bekki sem eru í dönsku. Kennslan fór fram á sænsku að eins miklu leyti og hægt var og þurftu nemendur til dæmis að íhuga hvað þeim fannst skipta máli fyrir eigin vellíðan. Hafdís Inga Haraldsdóttir fór til Norrköping í byrjun nóvember og þó að kennslan litaðist auðvitað af spjalli um eldgos og jarðskjálfta þá fengu nemendur líka tækifæri til að spreyta sig á einfaldri íslensku, velta fyrir sér félagslegri sjálfbærni á Norðurlöndunum og hvort samstarf þeirra á milli gæti bætt stöðuna. Nemendur eru yfirleitt mjög áhugasamir og má nefna að þegar sænsku nemendurnir áttu að meta hvernig til tókst var meiri hluti þeirra jákvæðari í garð norræns samstarfs en áður.