Menntaskólinn á Akureyri óskar öllum nemendum og starfsfólki velfarnaðar á nýju ári. Skólastarf fer nú af stað að loknu jóla- og áramótaleyfi.

Fyrst af öllu verða sjúkrapróf á morgun, fimmtudaginn 4. janúar klukkan 13.00, föstudaginn 5. janúar klukkan 9.00 og mánudaginn 8. janúar klukkan 13.00, samkvæmt próftöflu á vef MA   http://www.ma.is/static/files/skolinn/Prof_sjprof/Sjukra-aukapr-H17-2jan18.pdf

Örfá endurtökupróf verða haldin fimmtudaginn 11. janúar. Nemendur þurfa að skrá sig í endurtökuprófin á afgreidsla@ma.is fyrir 9. janúar og greiða próftökugjald, 8000 kr. Þeir þurfa jafnframt að hafa samband við kennara sína vegna tímasetningar prófanna.

Prófsýningar verða 15. janúar, en í sumum áföngum í fyrstu kennslustund vorannar, og verður það auglýst frekar þegar nær dregur. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá 16. janúar.

Næsta vika verður helguð undirbúningi nýrrar annar, og t.d. verður starfsmannafundur ,,Mörsugsmessa“ 10. janúar þar sem sjónum verður meðal annars beint að jafnrétti í skólastarfi.

Svolitlar breytingar verða á starfsmannaliði um annamótin. Herdís Margrét Ívarsdóttir kemur til starfa á bókasafninu, Ólöf Árnadóttir tekur við störfum af Sigurbjörgu Níelsdóttur í afgreiðslunni í janúar, Aðalbjörg Bragadóttir kemur til starfa sem íslenskukennari og Arnfríður Hermannsdóttir hefur störf sem efnafræðikennari. Sigurður J. Bjarklind lætur af störfum um áramót, en hann hefur kennt efnafræði og skyldar greinar frá haustinu 1976.