Óðinn Andrason
Óðinn Andrason

Óðinn Andrason 3VX hafnaði í þriðja sæti í eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna. Framundan er svo úrslitakeppni um helgina og þar veljast nemendur í lið Íslands til að fara á ólympíuleika í eðlisfræði. Óðinn er reynslubolti í keppnum sem þessum og var t.d. í liði Íslands á ólympíuleikum í stærðfræði í fyrra. Óðinn stóð vaktina, ásamt bekkjarfélögum sínum, á skólakynningunum í gær og í fyrradag og kynnti spennandi svið eðlis- og stærðfræði fyrir 10. bekkingum.

Uppfært: Úrslitakeppnin var núna um helgina í Háskóla Íslands og voru fimm efstu:

1. Benedikt Vilji Magnússon MR
2. Óðinn Andrason MA
3. Hildur Gunnarsdóttir MR
4. Hallgrímur Haraldsson MR
5. Einar Andri Víðisson MR

Þeim er boðið að taka þátt í Evrópsku Ólympíuleikunum í eðlisfræði (European Physics Olympiad) sem verða í Ljubljana í Slóveníu dagana 20.-24.maí næstkomandi en ætlunin er að þjálfa þau í páskafríinu.
Enn er ekki ljóst hvort Ísland sendi lið á Alþjóðlegu Ólympíuleikana (International Physics Olympiad) þetta árið. Leikarnir áttu að vera í Minsk í Hvíta-Rússlandi en vegna stríðsins í Úkraínu leyfa íslensk stjórnvöld ekki þátttöku í keppnum sem skipulagðar eru af Rússum eða Hvítrússum. Ef leikarnir verða ekki færðir getum við því ekki verið með að þessu sinni.