Ólöf Árnadóttir skólaritari
Ólöf Árnadóttir skólaritari

Við Menntaskólann starfa um 70 starfsmenn og á næstu vikum verða nokkrir þeirra kynntir. Ólöf skólaritari ríður á vaðið. 

Ólöf Árnadóttir ræður ríkjum í afgreiðslunni og hefur gert síðan í janúar 2018. Hún er rödd skólans því hún sér um símsvörun og afgreiðslu, ljósritun og sitthvað fleira. Og hún er líka oftast með fyrstu starfsmönnunum sem nemendur hitta þegar þeir koma í skólann (svona þegar ekki er hólfaskipting á COVID-tímum). 

Ólöf vinnur líka á heimavistinni og er þar á dagvöktum aðra hvora helgi. Hún umgengst því ungt skólafólk mikið. ,,MA er mjög góður vinnustaður og besta hvað andrúmsloftið er gott í skólanum. Samskipti mín við nemendur eru líka það skemmtilega við skólann, alltaf gaman að spjalla við þau og lífið væri tómlegt án þeirra.“

Ólöf er mikil fjölskyldukona og tíminn utan vinnu snýst gjarnan um börn og barnabörn og litlu langömmubörnin tvö. Eitt aðaláhugamálið er prjónaskapur og prjónar hún helst föt á ungbörn. Ólöf gengur líka mikið og er því sannkallaður göngugarpur.

Og draumastaðurinn? Það er sko Tenerife, engin spurning!