Ingibjörg Magnúsdóttir íþróttakennari og Jón Már Héðinsson skólameistari hafa lengi unnið að því að …
Ingibjörg Magnúsdóttir íþróttakennari og Jón Már Héðinsson skólameistari hafa lengi unnið að því að koma upp útiíþróttasvæði við skólann.

Það er óhætt að segja að menntskælingar allir, nemendur og starfsfólk, sé stolt og ánægt með nýju viðbótina í ,,húsnæði“ skólans. Eins og fram hefur komið hefur nýtt æfingasvæði verið tekið í notkun vestan við Fjósið, íþróttahús skólans og er það vel afmarkað af húsum skólans, Fjósinu, Möðruvöllum og Hólum, og svo Lystigarðinum í suðri.

Íþróttakennaranir hafa alltaf verið duglegir að hafa íþróttir úti við ef veður leyfir en nú aukast möguleikarnir enn frekar því hægt verður að vera í bandy og blaki úti, skjóta á körfu og gera æfingar. Nokkur æfingatæki eru á vellinum og á þeim eru lítil skilti sem sýna hvernig á að gera æfinguna og hvaða vöðvahópa verið er að þjálfa. Hægt er að skanna QR kóða á skilti við svæðið og fá með því leiðbeiningarmyndband af æfingunni. Svæðið er lagt gervigrasi og er hiti undir, þannig að vonandi verður hægt að nýta það eitthvað fram eftir hausti.

Það má segja að gamall draumur íþróttakennara skólans – og skólameistara – um gott útiæfingasvæði sé að rætast með þessum velli. Undirbúningur hófst fyrir alvöru síðasta haust og var síðan hafist handa við framkvæmdina í vor. Opnunarhátíð fyrir 1. bekkinga var haldin í dag og sá stjórn íþróttafélags skólans, ÍMA, um skipulagið ásamt íþróttakennurum. Skólameistari tók þá m.a. nokkur skot á körfuna enda gömul körfuboltakempa.