Nemendur ásamt Erni Þór, frönskukennara, við Eiffelturninn
Nemendur ásamt Erni Þór, frönskukennara, við Eiffelturninn

Lagt var af stað snemma morguns 16. október með flugi til Parísar og komum við til borgar ljóssins um hádegi. Rúta beið okkar svo á flugvellinum sem flutti okkur að farfuglaheimilinu þar sem við dvöldum í 4 nætur. Heimilið er í 9. hverfi, ekki langt frá miklu verslunar- og leikhúsavæði. Strax fyrsta daginn lögðum við í Montmartre brekkuna og enduðum við Sacré Coeur kirkjuna. Mjög gott útsýni er yfir alla París frá hæðinni þar sem kirkjan stendur.

Næsta dag lögðum við af stað snemma morguns með metró að Eiffel turninum sem gnæfir yfir alla borgina og er helsta kennileiti hennar. Þrátt fyrir mikla rigningu þá voru nemendur bara hæstánægðir að hafa farið upp í turninn.Eftir hádegi þá eyddum við deginum á Champs Elysees en það er fegursta gata Parísar með Sigurbogann sem trónir við enda hennar. Við lögðum svo snemma af stað að skoða eitt helsta djásn Parísar Sainte-Chapelle kirkjuna og „ la Conciergerie „ fangelsið þar sem aðalsmenn máttu dúsa áður en þeir fóru undir fallöxina í frönsku byltingunni. Frá fangelsinu lá leiðin að Notre Dame dómkirkjunni en verið er að „ endurreisa „ kirkjuna eftir brunann mikla fyrir fáum árum. Við skoðuðum okkur nánar um í Latínu hverfinu en síðan fórum við í Les Halles verslunarhverfið og gengum að Pompidou safninu sem sumir taka fyrir olíuhreinsunarstöð! Um kvöldið var svo mjög rómantísk sigling á Signu.

Síðasta daginn fórum við í eitt stærsta safn jarðar „ Le Louvre „, við vorum þar í dágóðan tíma. Gengum um Tuileries garðinn að Place de Concorde þar sem gríðarstór obélísk súla prýðir torgið sem er það stærsta í París. Á þessu torgi lentu flestir aðalsmenn undir fallöxinni í frönsku byltingunni. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í hinu glæsilega La Rotonde veitingahúsinu sem er skammt frá farfuglaheimilinu – matnum voru gerð góð skil. Einhverjir fóru á kappleik eftir matinn og sáu PSG sigra Strasbourg FC. Daginn eftir var svo haldið heim á leið eldsnemma að morgni.

Örn Þór Emilsson og Friðrika Tómasdóttir, fararstjórar og frönskukennarar