Píanókvartettinn Negla
Píanókvartettinn Negla

Í síðustu viku voru haldnir örtónleikar í löngu frímínútunum en þá heimsótti okkur píanókvartettinn Negla. Hann skipa fjórar konur, þær Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari, Anna Elísabet Sigurðardóttir víóluleikari, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari og Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari. 

Kvartettinn fékk styrk frá Akureyrarbæ til að spila tónleika í Hofi og koma auk þess fram á hjúkrunarheimilum og í skólum bæjarins. Þar sem það eru tveir fyrrum MA-ingar í kvartettinum, þær Hrafnhildur Marta og Þóra Kristín, vorum við svo heppin að þær vildu koma og spila örtónleika í sínum gamla skóla.

Kvartettinn flutti valda kafla úr píanókvartett eftir Johannes Brahms, sem þær svo fluttu á tónleikum í Hofi á sunnudeginum ásamt tónverkum eftir Arngerði Maríu Árnadóttur og Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur. Þetta var sannarlega skemmtilegt uppbrot og góð næring fyrir sálina.