Í dag, 20. desember, er síðasti dagur reglulegra haustannarprófa að þessu sinni. Það er breyting frá undanförnum árum, þegar prófin hafa verið í janúar. Vegna tilfærslu skólaársins hálfa leið að upphafi annarra framhaldsskóla voru prófin færð fram í desember og vinnuálagið í skólanum hefur breyst talsvert við það. Unnt var að koma prófum fyrir síðustu dagana fyrir jólaleyfið en sjúkrapróf verða 4. og 5. janúar og nokkur endurtökupróf verða 11. janúar.

Að sögn Sigurlaugar Önnu aðstoðarskólameistara hefur prófhald gengið vel þrátt fyrir að það sé ansi nærri jólum og flestir hefðu kosið að ljúka verkum fyrr. Nemendur hafi verið afar duglegir og nýtt sér lesaðstöðuna í skólanum fram á kvöld, þeir hafi verið önnum kafnir að búa sig undir síðasta prófdaginn þegar starfsfólk skólans kom saman í árlegt jólakaffi í gærkvöld, 19. desember.

Inna verður opnuð nemendum í dag og þá geta þeir nálgast einkunnir í prófum þar sem yfirferð er lokið.

Menntaskólinn á Akureyri óskar öllum nemendum og starfsmönnum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, og þakkar fyrir önnina sem er að líða.