Frá vinstri. Lára Hlín, Sara Ragnheiður, Thelma Rut og Heiðdís Ósk að störfum í verslun nemenda i Kv…
Frá vinstri. Lára Hlín, Sara Ragnheiður, Thelma Rut og Heiðdís Ósk að störfum í verslun nemenda i Kvosinni

Fréttaritari ma.is kom við í verslun nemenda á leið sinni til kennslu í morgun. Lítið var að gera hjá þeim Heiðdísi, Láru, Söru og Thelmu svo hann greip tækifærið og spurði þær hvort lífið á bak við afgreiðsluborðið væri alltaf svona rólegt. „Alls ekki“ svöruðu þær einum rómi. „Það er búið að vera brjálað að gera. Mikil sala á sælgæti en það sem er hollara er vinsælast og klárast fyrst eins og próteinstykki og hrískökur.“

Verslunin er opin í frímínútum, fjórum sinnum yfir daginn og þær stöllur segja að mest seljist í löngu frímínútum. Aðspurðar segjast þær ekki sjá ástæðu til að breyta vöruúrvalinu. Þær setja þó spurningarmerki við það að geta ekki selt ákveðna drykki sem innihalda minna koffín en drykkir sem nemendur geta keypt sér í verslun í grennd við skólann. Þá bentu þær fréttaritara á að þar sem hann stæði gætu nemendur fengið sér kaffisopa. „Er ekki koffín í kaffi“ spurðu þær og litu hver á aðra.

Nemendur eru dyggustu viðskiptavinir verslunarinnar en þó eru dæmi um að starfsfólk nýti sér þjónustuna. „Þeir eru ekki margir starfsmennirnir sem við hittum hér. Við viljum nota tækifærið og hvetja þá til að versla við okkur og styrkja þannig ferðasjóðinn okkar.“ Með því var fréttaritari rokinn á braut, kennslustund hafin og komið að því að fræða æskulýðinn. Enginn tími til að styrkja ferðasjóðinn, það verður að bíða betri tíma.