Þóra Karítas Árnadóttir á skjánum hjá 2. bekk
Þóra Karítas Árnadóttir á skjánum hjá 2. bekk

Um daginn fengu nemendur í íslensku góðar, rafrænar heimsóknir á Teams.

Þóra Karítas Árnadóttir kom á skjáinn hjá 2. bekk en þau hafa nýlokið við lestur sögulegu skáldsögunnar Blóðbergs. Þóra talaði um söguna, hvers vegna hún vildi segja hana og hvernig ritunarferlið var. Umfjöllunin var ítarleg, lífleg og góð og gagnaðist nemendum mjög vel. Nemendur voru áhugasamir og spurðu hana spurninga um einstök atriði sögunnar sem höfðu brunnið á þeim.

Í þriðja bekk mætti svo Bergsveinn Birgisson en hann skrifaði skáldsöguna Svar við bréfi Helgu. Nemendur hafa lesið söguna og séð kvikmyndina sem gerð var eftir henni. Bergsveinn talaði um mun sögu og myndar og sömuleiðis um söguumhverfið og persónusköpun. Nemendum gafst svo færi á að spyrja hann spurninga. Einn nemandi hafði svo á orði að ástarsaga Bjarna og Helgu minnti að mörgu leyti á dægurlagatextann um Nínu og Geira og hafði Bergsveinn gaman af þeirri samlíkingu.  

Kennarar og nemendur þakka þeim Þóru og Bergsveini kærlega fyrir komuna í MA.

Mikið er gott að geta nýtt tæknina á þennan máta!