Ari Óskar Víkingsson
Ari Óskar Víkingsson

Nemendur og starfsmenn MA deila upplifunum sínum af námi og kennslu í samkomubanni með lesendum ma.is.

Ég heiti Ari Óskar Víkingsson og ég er í 3. bekk, á mála- og menningarbraut. Margt er hægt að segja um stöðu á námi og kennslu þessa dagana enda er þetta allt saman alveg nýtt bæði fyrir nemendur sem og kennara. Fjarnámið hefur samt sem áður gengið mjög vel hjá mér og fyrir því eru nokkrar ástæður.

Fyrst má nefna gott skipulag hjá kennurum. Samskipti kennara og nemenda eru góð og eru kennararnir duglegir að senda okkur áminningar og fleiri gagnlegar upplýsingar. Annað sem ég hef tekið eftir er að þegar ég skipulegg tímann minn meira sjálfur er ég að læra betur. Ég er t.d. ekki að vakna kl. 8 á morgnana því mér finnst það alls ekki henta mér. Ég vakna frekar kl. 10 og læri þá lengur fram á daginn óþreyttur og einbeittur. Það að mæta kl. 8 á morgnana í skólann og sitja þar hálfsofandi og óeinbeittur til kl. 16 á daginn hentar mér nefnilega ekki vel. Það gerir það að verkum að ég læri bæði minna í skólanum og minna eftir skóla vegna þreytu og skorts á einbeitingu.

Það eru hins vegar alls ekki bara kostir við stöðuna sem við erum í. Það er einn risagalli við þetta að mínu mati og það er félagsskapurinn. Ég hitti ekki vini mína á hverjum degi eins og ég gerði þegar það var skóli og það er alveg glatað. Þessi staða hefur því opnað augun mín betur fyrir skipulagi á námi og skóla og hvort að skipulagið eigi að vera sveigjanlegra og mögulega meira undir nemendum komið. Staðan í dag hefur hins vegar einnig minnt mig á hvað það er frábært að geta mætt í skólann og hitt alla vini sína á hverjum degi.