Skólaspjald MA frá 1932
Skólaspjald MA frá 1932

Þessa dagana fangar ljósmyndari augnablikið í MA í þágu komandi kynslóða. Myndasmiðurinn tekur andlitsmyndir af nemendum og starfsfólki en afraksturinn mun birtast á nýju skólaspjaldi sem bætist í safn eldri spjalda á göngum skólans. Hringlaga ásjóna fjölmargra MA-inga á eldri skólaspjöldum hafa í gegnum tíðina orðið kveikja að góðu spjalli þeirra sem fara um Gamla skóla. Á bak við hvert andlit leynist saga. Kannski munu nemendur framtíðarinnar rýna í skólaspjald ársins 2023 og velta fyrir sér sögunum á bak við andlitin. Útsendari ma.is rýndi í gamalt skólaspjald í Gamla skóla og gróf upp sögukorn á bak við nokkur andlit nemenda og kennara í MA árið 1932.

Alda Snæhólm var listakona sem ferðaðist um heiminn og bjó um árabil bæði í Tyrklandi og Perú. Eftir hana liggja olíumálverk, vatnslitamyndir og teikningar sem hún sýndi á listasýningum. Fyrstu tilsögn í myndlist fékk hún á námsárum sínum í MA.

Friðgeir Ólafsson lauk kandidatsprófi í læknisfræði og varði doktorsritgerð í fræðigrein sinni við Harvard-háskóla. Hann þróaði meðal við lambablóðsótt. Friðgeir fórst ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum þegar Goðafoss var skotinn niður af þýskum kafbát í nóvember 1944.

Brynja Hlíðar var lyfjafræðingur og starfaði sem forstöðukona lyfjabúðar Kaupfélags Eyfirðinga. Hún stundaði myndlist og var virk í skátahreyfingunni. Brynja lést í flugslysi í Hestfjalli við Héðinsfjörð árið 1947.

Vernharður Þorsteinsson kenndi ungum Bandaríkjamanni íslensku á meðan hinn síðarnefndi dvaldist á Akureyri í nokkra mánuði árið 1922. Sá hét James Norman Hall og skrifaði síðar eina þekktustu skáldsögu bókmenntasögunnar, Mutiny on the Bounty.

Björg Baldvinsdóttir var leikkona hjá Leikfélagi Akureyrar í 45 ár auk þess að syngja með Kantötukórnum, kirkjukórnum og kór aldraðra á Akureyri. Á sínum yngri árum lærði hún ljósmyndun og framköllun og starfaði um langt árabil sem einkaritari hjá Rafveitu Akureyrar. Björg náði háum aldri, hún lést tæplega 103 ára.

Kristinn Guðmundsson var utanríkisráðherra, sendiherra í London og ambassador í Sovétríkjunum. Hann var forseti ráðherrafundar NATO í París og ráðherrafundar Evrópuráðsins í Strassborg.

Andlit fleiri nafntogaðra einstaklinga má finna á skólaspjaldinu svo sem ráðherranna Ólafs Jóhannessonar og Lúðvíks Jósepssonar og forsetans Kristjáns Eldjárn. Þeir eiga sína sögu eins og öll hin.