Sigurður Ólafsson kenndi við Menntaskólann á Akureyri 1994 – 2018. Hann lauk starfsævi sinni við skólann og í Háskólanum á Akureyri en hafði kennt áður við Framhaldsskólann á Húsavík og búið lengi í Danmörku við nám og störf.

Sigurður var heimspekingur að mennt og í hugsun. Hann lærði heimspeki og hugmyndasögu og kenndi þær greinar, siðfræði og sögu við MA. Við námskrárbreytingar talaði hann ákaft fyrir því að siðfræði yrði gerð að skyldugrein við Menntaskólann á Akureyri enda væri mikil þörf á því í nútímasamfélagi sem hirti stundum lítið um hið sanna og góða. Yfirgripsmikil þekking, kjarnyrt íslenska og hljómmikil rödd einkenndi hans kennslu, sem fór gjarnan fram í fyrirlestrum og glósum á töfluna.

Góður vinur og samkennari lýsti honum á þann veg að hann hefði verið hrjúfur hið ytra en viðkvæmur hið innra. Sigurður setti mikinn svip á skólalífið, í orði og æði. Svipmikill með sitt mikla hár, ávallt í jakkafötum, rökfastur og gagnrýninn, afar metnaðurfullur fyrir hönd skólans og menntunar.

Fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri þökkum við fyrir árin hans í MA og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Minning um góðan dreng lifir.

Fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri

Karl Frímannsson skólameistari, Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari