Heimsótti W. H Auden MA árið 1936?
Heimsótti W. H Auden MA árið 1936?

Pulitzer-verðlaunaskáldið W. H. Auden (Wystan Hugh Auden) ferðaðist um Ísland sumarið 1936. Ferðalagið varð Auden innblástur að bókinni Letters from Iceland sem kom út ári síðar. Bókin er ferðasaga og lýsing á landi og þjóð, séð með augum aðkomumanns. Meðhöfundur bókarinnar er írska skáldið Louis MacNiece, ferðafélagi Auden á Íslandi.

Auden kom til Akureyrar í fylgd Ragnars Jóhannessonar, ungs herramanns frá Búðardal sem hafði tekið að sér að leiðsegja skáldinu á ferðalgi þess norðan heiða. Ragnar þekkti vel til í höfuðstað Norðurlands, hafði útskrifast frá MA tveimur árum áður og eignast vini á Akureyri. Hann þekkti því vel til í Gamla skóla.

Í bókinni lýsir Auden góðum móttökum sem Ragnar fékk frá skólafélögum hans úr MA þegar ferðafélagarnir komu til Akureyrar. Auden dvaldi á Akureyri í tvær nætur en í bókinni lýsir hann því helsta sem fyrir augu ber í bænum. Á einum stað í bókinni skrifar Auden. „I went up to the school to see its collection of Icelandic paintings“ [Ég fór upp eftir í skólann til að skoða safn af íslenskum málverkum – lausleg þýð. undirritaðs].

Nemendur í menningarsögu eru þessa dagana að læra um einstaklinga sem hafa getið sér gott orð á sviði menningar og lista innanlands sem utan frá dögum Jörundar hundadagakonungs til stríðsára og tengsl þeirra við heimabyggð. W. H. Auden kemur við sögu og ferðalag hans á Íslandi. Hver veit nema nemendur MA nái að varpa frekara ljósi á mögulega heimsókn skáldsins í Gamla skóla til að njóta myndlistar – sömu myndlistar og nemendur njóta á leið þeirra í menningarsögu?