Skólaslit 2017
Skólaslit 2017

Menntaskólanum á Akureyri var slitið 17. júní með athöfn í Íþróttahöllinni. Skólameistari Jón Már Héðinsson sleit skóla og brautskráði 145 stúdenta. Fulltrúar afmælisárganga og fulltrúi nýstúdenta fluttu ávörp. Tónlist við athöfnina fluttu Tumi Hrannar-Pálmason nýstúdent og þau Una Haraldsdóttir og Alexander Smári Edelstein, sem bæði voru í 3. bekk skólans en luku framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri á skólaárinu

Í skólaslitaræðu vísaði skólameistari fyrst til Skólasýnar MA og einkunnarorða skólans og hét á nemendur að rækta áfram með sér inntak þess. Hann ræddi síðan um nauðsyn góðra samskipta nemenda og kennara og það hlutverk að þjálfa nemendur í að vera sjálfstæðir borgarar með sterka siðferðisvitund.

Skólastarfið og breytingar á því
Jón Már fjallaði um það mikla starf sem unnið hefur verið við að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár, þá gífurlegu vinnu sem lögð hefur verið á kennara og starfslið skólanna og þann litla stuðning sem yfirvöld hafa veitt því starfi svo og að ekki skuli staðið við þau heit að skólarnir njóti fjárhagslegs ávinnings af starfinu. Starfsfólk og nemendur skólanna hafi unnið þrekvirki í að koma á breytingum á skólakerfinu og verkinu sé alls ekki fulllokið. Mikilvægt sé hins vegar að umræðan um skólana sé uppbyggileg og hvetjandi fyrir þær þúsundir nemenda, flestra ólögráða, sem ár hvert eru í framhaldsskólanámi á landinu. Það sé áríðandi að hlúa að skapandi hugsun þeirra og áræðni að fara út fyrir þekktan ramma. Þar vísaði meistari meðal annars til orða gamals nemanda skólans, Þorsteins Más Baldvinssonar, þar sem hann sagði frá fullkomnasta frystihúsi í heimi, sem rísa mun á Dalvík með tækni sem jafnvel hefur ekki enn verið fundin upp.

Skólameistari sagði að síðastliðið haust hefði verið innritað í þriggja ára nám í skólanum og þrátt fyrir það séu skólasýn og viðmið menntunar þau sömu, að búa nemendur sem best fyrir nám og lífið framundan. Þeir muni í hinu sveigjanlega kerfi geta hagrætt námstíma sínum eftir þörfum þannig að þeir lengi hann um hálft eða eitt ár. Hann benti á að í nútímaskólum væri val mun meira en áður hefði tíðkast. Slíkt kæmi sér vel fyrir þá sem væru vissir hvert þeir stefndu, en margir séu óráðnir og því sé hlutverk skólans meðal annars að þjálfa þá í að velja. Í skólanum sé stefnt að því að nemendur velji nám sem höfðar til þeirra. Slíkt sé betra en að aðgangsstýra námi eftir einhverjum hugmyndum um þjóðhagslega hagkvæmni.

Jón Már áréttaði að fjárfesting í menntun væri sú arðbærasta í hverju samfélagi því menntun væri undirstaða samfélagsins. Þess vegna þurði að verða til sameignleg framtíðarsýn menntunar. Menntun sé undirstaða lýðræðis, menntunar og heilbrigðis. Það skipti máli í fjármögnun  framhaldsskóla. Hann vék einnig að undirbúningi að samstarfi framhaldsskóla á Norðausturlandi og því að skólaár MA hafi verið flutt fram að nokkru leyti og skóli verði settur í ágústlok, en framvegis verði brautskráning þó 17. júní.

Starfsfólk
Skólameistari sagði að starfsfólk hefði verið í vetur 80 manns. Hann þakkaði öllum metnaðarfullt og gott starf. Í úttekt á stofnun ársins hefði komið fram að starfsfólk sé ánægt og beri traust til stjórnenda og samverkafólks og skólinn hefði að auki fengið mjög jákvæða umsögn í ytra mati á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Meðal innra starfs væri hlutur StaMA, Starfsmannafélags MA mikilvægur. Það stæði fyrir vorferðum og haustferðum, fræðslu og kvöldvökum og reglubundið fyrir kynnisferðum til skóla í útlöndum, nú síðast afar vel heppnaðri ferð til Parísar um páskaleytið.

Skólameistari þakkaði tveimur starfsmönnum langt og drjúgt starf við skólann og veitti þeim gulluglu skólans. Þetta eru Ragnheiður Sigurðardóttir sem hefur verið yfirbókavörður MA í 34 ár og Brynjólfur Eyjólfsson, sem kennt hefur eðlisfræði í 29 ár og lengi gegnt starfi trúnaðarmanns.

Nemendur og nám
Í skólanum voru í vetur 712 nemendur. Á fyrsta ári voru þeir 229, í öðrum bekk 166, 172 á þriðja ári og nýstúdentar eru 145. Skólinn státar af fjölmörgum metnaðarfullum nemendum sem sýna framúrskarandi árangur og hljóta háar einkunnir. Hér eru þeir sem hafa hlotið hæstar einkunnir á skólaárinu. tekið skal fram að lokaeinkunn á stúdentsprófi er vegið meðaltal allra einkunna öll skólaárin:

Í 1. bekk hlaut hæsta einkunn Katrín Hólmgeirsdóttir í 1U, 9,8. Í 2. bekk var hæstur Birkir Freyr Andrason í 2T, 9,7. Í 3. bekk hlaut hæstu einkunn Erna Sól Sigmarsdóttir 3T, 9,6. Hæsta einkunn í 4. bekk hlaut Erla Sigríður Sigurðardóttir í 4X, 9,8.

Félagslíf
Skólameistari fjallaði um mikilvægi félagslífs, sem væri eins konar verknám í að skipuleggja og stjórna samfélagi. Þátttaka væri afar mikil og áhugi meðal nemenda líka. Til dæmis hefðu 50 nemendur boðið sig fram til embætta í skólalífinu og í kosningum hefði verið 90% þátttaka. Það sé ekkert sjálfgefið og mikilvægt að hlúa að þessum áhuga í nýju skólakerfi. Öflugt félagslíf sé nauðsynlegt og þegar nemendum sé treyst standi þeir fyllilega undir því.

Meðal þess sem Jón Már nefndi af atburðum í félagslífinu var hin glæsilega vímulausa árshátíð, sem er eitt helsta stolt skólans, fjölmenn og mikil sýning Leikfélags MA á söngleiknum Anný, þar sem nemendur sömdu dansa, útsettu tónlist og léku og dönsuðu allt sjálfir, Gettu betur og Morfis, þar sem nemendur komust í undanúrslit í hvoru tveggja, skólablaðið Muninn, sem kom út haust og vor, glæsileg söngkeppni, kvöldvökur, söngsalir og fleira. Auk þess hefðu nemendur tekið þátt í margvíslegri námstengdri keppni. Því ætti skólinn fulltrúa í ólympíuliðum Íslands í stærðfræði og eðlisfræði og nemendur hefðu náð góðum árangri í forritunarkeppni, enskri ræðukeppni, smásagnakeppni á ensku og í þýskuþraut. Einnig hefðu nemendur tekið þátt í samfélagsverkefnum með eldri borgurum, meðal annars kennt þeim á tölvur og síma. Eftirminnilegast sé þó metnaðarfullt átak nemenda að safna áheitum og ýta bíl Eyjafjarðarhringinn, eins og fram kom í sjónvarpi og blöðum, og afhenda afraksturinn geðdeild sjúkrahússins til að bæta þjónustu við ungt fólk.

Afmælisstúdentar
Fulltrúar afmælisárganga fluttu ávörp og kveðjur við skólaslitin og skólanum bárust góðar gjafir. Ingvar Gíslason var fulltrúi 70 ára stúdenta. Fyrir hönd 60 ára stúdenta mælti Freyr Ófeigsson. Fulltrúi 50 ára stúdenta var Jakob Hjálmarsson. Talsmaður 40 ára stúdenta var Björgólfur Jóhannsson. Ávarp 25 ára stúdenta flutti Andri Már Þórarinsson og konan í þessum hópi var Sesselía Ólafsdóttir, 10 ára stúdent. Að lokinni brautskráningu flutti nýstúdentinn Björn Kristinn Jónsson ávarp, en hann var formaður skólafélagsins Hugins á liðnu skólaári.

Nýstúdentar
Skólameistari brautskráði 145 nýstúdenta. Meðaleinkunn á stúdentsprófi þetta árið er 7,59. Margir stúdentar hlutu verðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur sinn. Að þessu sinni hlutu 6 nemendur ágætiseinkunn, 9,0 eða hærra, í stúdentsprófseinkunn, sem er vegið meðaltal allra einkunna öll fjögur skólaárin.

Hæstu einkunn hlaut Erla Sigurðardóttir í 4X, 9,55. Í öðru sæti vat Sigríður Júlía Heimisdóttir í 4T, 9,10. Þriðja og fjórða sæti hrepptu Atli Fannar Franklín 4X og Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir, 4T 9,04. Í fimmta sæti er Ragna Vigdís Vésteinsdóttir 4X 9,02. Sjötta er Borgný Finnsdóttir 4A 9,0.

Að lokum þakkaði skólameistari nýstúdentum samstarfið gegnum árin og ítrekaði mikilvægi þess að þeir héldu saman í gleði jafnt og sorg. Hann þakkaði þem sérstaklega fyrir þeirra þátt í þeim breytingum sem yfir hafa staðið. „Menntaskólinn á Akureyri sendir ykkur tilbúin út í lífið, til að takast á við það og háskólanám af hvaða tagi sem er. En munið að þið getið ekki keypt ykkur hamingju. Hún kemur til ykkar þegar þið eruð að strita að því litla fyrir það mikla.“

Myndir frá skólaslitum á Facebook:

Morgunstund í Kvosinni

Brautskráning í Höllinni

Myndatakan við Möðruvelli