Brynjar Karl Óttarsson:

Senn líður að jólum. Nemendur þreyta lokapróf þessa dagana og kennarar keppast við að ljúka námsmati fyrir jólafrí. Sérstök stemning ríkir gjarnan á námsmatsdögum í desember þegar stundatöflur með tilheyrandi rútínu fá hvíld. Einhvers konar blanda af spennu og tilhlökkun. Prófavertíð fylgir vissulega álag en eitthvað er heimilislegt við það þegar nemendur og starfsfólk sameinast í tilhlökkun. Tilhlökkun gagnvart próflokum, jólum, jólafríi eða einhverju allt öðru. Menntaskólinn er jú heimili í vissum skilningi. Og þannig hefur það sennilega alla tíð verið. Í það minnsta lýsti nemandi skólans honum svo í grein þann 21. desember fyrir 90 árum síðan. Greinin ber heitið Þökk og birtist hún í skólablaðinu Muninn á aðfangadag jóla árið 1928.

 Í kvöld hefir ofurlítið þrekvirki verið unnið hjer í skólanum. Í kvöld hafa nemendur og nærfelt allir kennarar setið fund saman. Í kvöld hefi jeg fundið til þess í fyrsta skifti eftir þriggja mánaða dvöl hjer, að skólinn er allur eitt heimili. Og jeg legg áherslu á orðið heimili. Flestir koma til skólans frá heimilum sínum, besta staðnum og helgasta er þeir þekkja á jarðríki. Þau viðbrigði geta orðið töluvert hættuleg, á þessu reki, ef ekkert mætir sem minnir á gamla kæra staðinn, ekkert, sem styrkir þau bönd er tengja bljúgan hug við bernskuarinn. Jeg fæ ekki varist því - mjer finst þau bönd heilög og dýrt blóð drjúpi ef á þau er höggvið án þess að skildi sje brugðið fyrir. Jeg vil ekki dæma, aðeins spyrja: Eru þau bönd ekki oft hraparlega illa leikin í skóla - hjer sem víðsvegar? Börnunum finnst sem standi skarð "opit ok ófult", þegar pabbi og mamma eru eigi viðstödd á kvöldvökunni. Hjer eru þau fjarri og börnin unglingar. Ósjálfrátt horfa þeir til húsfeðranna með ekki ósvipuðu hugarfari og þegar börnin vildu fá að heyra sögu í rökkrinu. - Þið misskiljið mig ekki. - Í kvöld var þessu svipað farið. Húsfeðurnir komu - og þökk sje þeim. En það er sárt að þurfa að bæta við: Vjer komum ekki. Vjer ljetum hálftóm sæti fagna þeim er við óskuðum eftir. Veikindi og jólaleyfi valda að nokkru.

 Húsfeðurnir ljetu oss finna í kvöld að þeir vildu vera með oss "utan kenslustunda", ljetu oss finna það svo að þess verður lengi minst með öðrum hætti en venjuleg þreytandi þakkarorð tjá. En annað stakk svo að undan sveið: Vjer höfum enn þá ekki eignast þann sannleika að á meðan vjer dveljum hjer - og ef til vill lengur - erum vjer systkyn - stór og lítil í einum hóp. Jeg skil vel að vjer eigum erfitt með að átta oss á þessu. Stundum veitir örðugt að skilja það sem minna er. En getum vjer ekki látið minninguna um eigin heimili - systkyni og vandamenn - hjálpa oss til að standa einlægari saman hjer og mynda fjelagslíf, heimilislíf sem auðgar þá stofnun, sem við dveljum við og eykur djásnforða eigin endurminninga. Jeg játa að jeg er ekki mönnum kunnugur enn hjer í skóla. En þegar jeg skrifa þessar línur fer jeg yfir hópinn í huga mínum og þá finn jeg innilegt traust til ykkar skólasystkyna minna í því efni, að oss takist að halda saman fjelagslífi eins og systkynahópi sæmir. Og eigum vjer ekki að þakka húsfeðrunum það drengskaparbragð, sem þeir sýndu oss í kvöld með því að stíga yfir þröskuldinn erfiða, sem oss hefir mætt sameiginlega í nærfelt 3 mánuði: fjelagsmáttleysi skólans. Það væri dáðaverk, æskunni - og jólunum - samboðið. Gleðileg jól skólasystkyni, - þá á jeg við að oss takist að inna þetta dáðaverk af hendi. Þakka ykkur fyrir það sem komið er - og við skulum öll koma næst - öll systkynin.

Heimili - það er ykkur að þakka, kennarar, að þetta orða og það sem því fylgir er svo nálægt í kvöld. Og það verður að vera lengur hjer með oss, helst þiggja vetrarvist.

Það er undarlega gott að geta þakkað, ef til vill betra en að vera þakkað. Og jeg er svo mikið barn ennþá að mjer þykir gott að geta þakkað einmitt  á jólunum. Og þótt mín hönd stýri pennanum, sem festir þessi orð á pappírinn og minn hugur velji orðin, eru það fleiri en jeg sem vilja þakka ykkur fyrir komuna í kvöld - fleiri en jeg, sem muna hana morgni  lengur. Í kvöld hafið þið unnið meira happaverk, sáð betra sæði en ykkur ef til vill grunar. Þökk fyrir það. Þökk fyrir komuna í kvöld. Þökk er helguð óskin um

                                             

                                                                            gleðileg jól!

              

                                                                                            21—12—1928.

                                                                                                           E. M.