Kyrrð og ró í Friðheimi
Kyrrð og ró í Friðheimi

Nú í vikunni fengu nemendur tölvupóst frá Hóffu, íþróttakennara, þar sem hún kynnti slökunarstund í Friðheimi í hádeginu á þriðjudögum og fimmtudögum. Stundin er frá kl. 11:30-11:50 og gefst öllum nemendum tækifæri á að læðast inn og njóta, fá leidda slökun og að núllstilla sig. Nú er um að gera að nýta tækifærið og huga að líkama og sál í amstri hversdagsins.

Friðheimur er slökunarherbergi í Gamla skóla sem er eitt bjargráð af átta í Erasmus verkefni nokkurra kennara við MA og samstarfsfélaga þeirra í Budapest. Verkefnið kallast „Supporting Students' and Educators' Mental and Physical Well-being in Challenging Times“. Í verkefninu er unnið að því að finna og hanna átta bjargráð sem geta nýst nemendum og starfsfólki skólans við að bæta andlega og líkamlega heilsu og vellíðan.

Friðheimur er opinn nemendum sem og starfsfólki en panta þarf tíma á þar til gerðu skráningarblaði í kjallara Gamla skóla.