Björn Vigfússon fræðir nemendur um helstu sögupersónur Sturlungu og örlög þeirra
Björn Vigfússon fræðir nemendur um helstu sögupersónur Sturlungu og örlög þeirra

Stór hópur nemenda fór í dag á slóðir Sturlunga í Eyjafirði og í Skagafirði. Með í för voru sögukennararnir Björn Vigfússon og Brynjar Karl Óttarsson og skólameistari Karl Frímannsson. Norðlenskar miðaldir var yfirskrift ferðarinnar. Ferðin hófst í Grundarkirkju í Eyjafjarðarsveit þar sem Valdimar Gunnarsson fyrrverandi kennari við MA spjallaði við nemendur. Hann fór yfir sögu kirkjunnar og sagði krökkunum frá Magnúsi Sigurðssyni, manninum sem á heiðurinn af því að kirkjan var reist í upphafi 20. aldar. Sannkölluð veisla á Grund. Henni lauk með því að nokkrir úr hópi nemenda tóku lagið við gítarundirspil. Frá Grund var farið í Skagafjörð þar sem fyrri áfangastaðurinn var Kakalaskáli. Staðarhaldarar Sigurður Hansen og María Guðmundsdóttir tóku vel á móti hópnum. Nemendur skoðuðu safnið sem og steinavígvöllinn og fengu leiðsögn. Eftir góðan hádegisverð og fleiri skemmtiatriði í boði nemenda var stefnan tekin á Hóla í Hjaltadal. Sigríður Sigurðardóttir lektor við Háskólann á Hólum og séra Gísli Gunnarsson vígslubiskup í Hólaumdæmi sögðu nemendum frá skólanum og kirkjunni. Nemendur fengu að skoða kirkjuna og hesthús Hólamanna áður en lagt var af stað heim eftir lærdómsríka og skemmtilega ferð aftur á miðaldir.

Hér má sjá myndir úr ferðinni.