Söngkeppni MA 2020 í Hofi
Söngkeppni MA 2020 í Hofi

Fimmtudaginn 30. janúar fer fram árleg söngkeppni Menntaskólans á Akureyri í Menningarhúsinu Hofi, n.t.t. í aðalsal hússins, Hamraborg. Samkvæmt fésbókarsíðu TóMA, Tónlistarfélags Menntaskólans á Akureyri, eru 14 atriði skráð til leiks. Ásamt TóMA heldur skólafélagið Huginn utan um viðburðinn.

Dómarar kvöldsins eru ekki af verri endanum. Það mun koma í hlut Bergþórs Pálssonar, Regínu Óskar og Summa Hvanndal að velja sigurvegara kvöldsins. Kynnar verða þeir Ólafur Tryggvason og Zakaria Soualem.

Til mikils er að vinna. Sigurvegarinn mun keppa fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna á vordögum og þá munu þeir flytjendur sem enda í þremur efstu sætunum hljóta glæsilega vinninga.

Húsbandið skipa þau Hafsteinn Davíðsson (trommur), Jóhann Þór (bassi), Jóhanna Rún (hljómborð), Pétur Smári (gítar) og Þráinn Maríus (gítar). Tónlistarstjóri er Guðjón Jónsson.

Miðinn kostar 2900 krónur. Miðasala er á tix.is og mak.is en einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn. Miðasala hefst mánudaginn 27. janúar.

Upplýsingar og mynd frá fésbókarsíðu TóMA.