Ari Orrason (tv) og Helgi Björnsson (th) eru í hópi skipuleggjenda Söngkeppni MA 2019
Ari Orrason (tv) og Helgi Björnsson (th) eru í hópi skipuleggjenda Söngkeppni MA 2019

Nemendur skólans eru á fullu þessa dagana við að undirbúa Söngkeppni MA sem haldin verður í Hofi fimmtudagskvöldið 21. febrúar. Margir koma að undirbúningnum og að mörgu er að hyggja þegar svo stór viðburður er annars vegar. Nemendur í skólafélaginu Huginn og tónlistarfélagi skólans, TóMA bera hitann og þungann af undirbúningi söngkeppninnar.

Til að forvitnast um keppnina og verkefnin sem henni fylgja fékk fréttaritari ma.is tvo úr hópi skipuleggjenda til að svara nokkrum spurningum. Ari Orrason er í stjórn TóMA. Helgi Björnsson er í stjórn Hugins þar sem hann gegnir stöðu skemmtanastjóra. Þeir, ásamt stórum hópi nemenda við skólann, hafa staðið í ströngu við að gera allt klárt fyrir sönghátíð fimmtudagsins.

Hvernig er undirbúningi háttað fyrir keppni sem þessa og hvernig hefur hann gengið?

Ari: Mikill tími fer í byrjun að ræða saman, koma okkur saman um hvernig best er að gera hlutina. Svo taka verkefnin við, heyra í dómurum, safna vinningum, leigja húsnæði, ákveða sviðsuppsetningu og ýmislegt fleira. Jú þetta hefur bara gengið vel. Fólk tekur vel í að koma að þessu og flestir svara fyrirspurnum frá okkur mjög fljótlega eftir að við sendum þær.

Helgi: Já, það eru ýmis verkefni sem þarf að leysa. Við þurfum að hafa allt tilbúið fyrir húsbandið, sjá um markaðssetningu, prenta auglýsingar, gera miðasölu klára. Já það er í mörg horn að líta. Undirbúningur hefur gengið vel myndi ég segja. Eins og Ari segir um viðbrögð þeirra sem við leitum til, yfirleitt eru þau jákvæð og fólki finnst leiðinlegt að geta ekki hjálpað til þegar eftir því er leitað. Sem dæmi má nefna þá sem við höfum beðið um að dæma í keppninni. Þeim finnst leiðinlegt að þurfa að segja nei við okkur.

Hvað getið þið sagt okkur um keppnina í ár? Er hún sambærileg við keppnina 2018?

Helgi: Söngkeppnin stækkar alltaf. Ef heldur áfram sem horfir þurfum við líklega að halda keppnina í Gilinu á næsta ári. Síðasta keppni var auðvitað eftirminnileg þegar Birkir Blær sigraði.

Ari: Hún er stærri en keppnin i fyrra. Þá voru atriðin 19 en nú eru þau 24. Það var einmitt á síðasta ári sem samstarf félaganna tveggja varð svona mikið og náið vegna söngkeppninnar. Það var mjög skemmtilegt þá og gaman að endurtaka leikinn í ár. Margir nemendur á fyrsta ári taka þátt núna. Mjög ánægjulegt að sjá þá taka sig til og stökkva út í djúpu laugina.

Skiptir svona viðburður máli fyrir skólann og/eða nemendur?

Helgi: Já. Ef við hugsum um félagslífið í skólanum þá skiptir svo miklu máli að hafa svona stóra viðburði. Þetta er svolítið eins og árshátíð. Það er mikilvægt að geta boðið upp á stærri viðburði en kvöldvöku í Kvosinni.

Ari: Já, þetta skiptir máli. Skólaandinn verður betri. Ég ætla að gerast svo frakkur að segja að söngkeppnin sé einn af þremur stærstu viðburðum á vegum skólafélagsins ár hvert. Hinir tveir eru árshátíðin og sýning leikfélagsins. Söngkeppnin er skemmtilegur viðburður og gaman að sjá tónlistarlífið í skólanum blómstra.

Hvað eiga áhorfendur í vændum á fimmtudagskvöld?

Helgi: Það er ekkert nýtt að margir nýnemar taki þátt í söngkeppninni. En mér sýnist á því sem ég hef heyrt og séð að núna í þessari keppni sé óvenju hæfileikaríkt fólk á ferðinni. Í hópi keppenda eru t.a.m. tveir nemendur sem taka þátt í sýningu leikfélagsins sem skólinn er að frumsýna í mars. Það eru svo miklir hæfileikar í þessum skóla.

Ari: Það er líka svo mikil gróska í tónlistarlífi skólans núna og bara á þessu svæði. Það er eins og tónlistarsenan sé að vakna hérna. Við erum að að sjá mjög marga nýja tónlistarmenn koma fram á sjónarsviðið sem eru að gefa út efni. Gestir í Hofi eiga því eftir að fá að njóta þess að heyra fullt af tónlist og sjá efnilegt tónlistarfólk.

Einhver lokaorð?

Ari: Við minnum á miðasöluna. Öllum áhugasömum, hvort sem þeir eru í skólanum eða ekki, býðst að kaupa miða á söngkeppnina.

Helgi: Við viljum auðvitað fá sem flesta úr skólanum en allir eru velkomnir. Við vonum bara að fólk mæti í Hof með bros á vör.