Síðasta lag á söngsal er skólasöngurinn
Síðasta lag á söngsal er skólasöngurinn

Það eru miklar annir í skólanum þessa dagana; farið að styttast í annarlok og þungi í verkefnaskilum og námi. Á mánudaginn er námsmatsdagur sem nýtist þá meðal annars til verkefnavinnu.

Nemendur tóku sér þó frí eina kennslustund í dag og sungu á söngsal. Kennarar enduðu hins vegar daginn á menntabúðum. Þar voru þrjár búðir í boði; Valdís Björk Þorsteinsdóttir brautarstjóri sagði frá vinnustofu, sem hún sótti nýverið, á vegum Eurostat þar sem kynnt voru ýmis gagnleg verkfæri til að nálgast tölfræðilegar upplýsingar um Evrópulönd og vinna með þær myndrænt og gagnvirkt. Jóhann S. Björnsson fagstjóri í stærðfræði stýrði annarri málstofu undir yfirskriftinni: Um tungumál stærðfræðinnar í sögulegu ljósi eða: Hvernig ég lærði að hætta að hafa áhyggjur og elska skilgreiningar og sannanir. Tæpt var á sögu stærðfræðinnar frá tímum forn Grikkja til dagsins í dag, með það að leiðarljósi að skilja hlutverk stærðfræðinnar í nútíma samfélagi. Hann velti upp spurningum um hvaða áherslur séu skynsamlegar í stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi. Einnig var i boði opin vinnustofa þar sem hægt var að fá tölvu- og tækniaðstoð eftir þörfum hvers og eins í umsjón UT-fulltrúanna Arnfríðar Hermannsdóttur og Önnu Eyfjörð. 

Margir nemendur verða á faraldsfæti í næstu viku; ríflega 40 nemendur fara til Berlínar ásamt þýskukennurunum Margréti Kristínu og Sigrúnu Aðalgeirsdóttur og nemendur í 2. T, U, VX fara í jarðhitaferð  í Kröflu, gróðurhúsin á Hveravöllum og Sjóböðin á Húsavík ásamt kennurum sínum Einari Sigtryggssyni og Þórhildi Björnsdóttur. 

Undirbúningur árshátíðarinnar er hafinn fyrir alllöngu, og er t.d. fjölmenni í Kvosinni að lokinni kennslu þegar skreytinganefndin kemur saman og hannar og föndrar. Í dag var einnig kynnt að Páll Óskar verði aðaltónlistarmaður árshátíðarinnar.