Ína Soffía er bjartsýn á blómlegt félagslíf í vetur
Ína Soffía er bjartsýn á blómlegt félagslíf í vetur

Ína Soffía Hólmgrímsdóttir er nýr forseti nemendafélagsins Hugsins. Hún segir það vera ákveðna áskorun að taka við verkefninu á tímum Covid, en að það sé samt mjög skemmtileg áskorun.

Hvernig leggst önnin í þig?

Önnin leggst vel í mig. það er mjög svekkjandi að koma aftur í svona mikið fjarnám þar sem ég er alveg til í að fara komast í skólann og hitta alla. Ég held að ég tali fyrir marga þegar ég segi að mig vanti að komast í almennilega rútínu. Það er nú samt allt á uppleið og vona ég að við fáum öll að fara að komast í skólann eins fljótt og hægt er.

Hvernig er að taka við sem forseti nemendafélagsins á Covid-tímum

Ég var mjög svekkt í sumar þegar ástandið fór að versna aftur og eina sem fór í gegnum hausinn var ,,æ nei skólinn“. Ég hætti því samt fljótt og er mjög bjartsýn núna fyrir komandi tímum og það er líka mjög mikilvægt að vera jákvæður, sérstaklega fyrir sjálfan sig og líka fólkið í kringum sig.

Ætlar þú að gera eitthvað nýtt og spennandi sem forseti? Eru breyttar áherslur eða nýjungar framundan?

Það eru klárlega breyttar áherslur á næstu viðburðum skólafélagsins vegna aðstæðna. Sumt frestast eða breytist svo það er aldrei að vita hvort að einhverjar nýjungar leynist hjá okkur. Þetta skólaár og þá sérstaklega þessi önn verður í fyrsta lagi mikil óvissa. En óvissan getur verið hrikalega skemmtileg og spennandi. Ég get lofað öllum að það verður a.m.k. ekki leiðinlegt hjá okkur nemendunum í ár. Við í stjórninni erum með fullt af hugmyndum að skemmtilegum uppákomum og viðburðum.

Árshátíðin er einn af stóru viðburðum skólaársins, þessi spurning brennur á mörgum: Verður árshátíð?

Já. Það verður árshátíð. Sama hvort hún verður haldin fyrr eða seinna. Það verður árshátíð og hún verður frábær.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Þetta eru erfiðir tímar og vil ég fyrir hönd okkar í stjórninni þakka, þá sérstaklega nemendum, fyrir skilning og þolinmæði því ég veit að margir eru ekki hrifnir af miklu fjarnámi án félagslífs og að þurfa bíða endalaust eftir svörum. Við erum ótrúlega spennt að hitta alla á ný og fara að brjóta löngu dagana upp. Við minnum ykkur svo öll líka á að fara varlega :)

Stjórn Hugins

H r a ð a s p u r n i n g a r

Uppáhaldslitur? Fjólublár

Hvaða lag er núna í spilaranum á Spotify? The Lakes með Taylor Swift

Skemmtilegasta námsgreinin í MA? Franska

Uppáhaldsmatur? Grillaður kjúklingur, sætar kartöflur og jógúrt sósa

Af hverju er nýjasta myndin sem þú tókst? Ætli það sé ekki mynd af sjálfri mér á snapchat…

Huggulegasta stofan í MA? Yoga í Miðsal er mjög huggulegt

Hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðin stór? Ég stefni á að mennta mig sem viðskipta- og markaðsfræðingur eftir MA en hver veit hvar maður endar og hvenær maður verður nógu stór til að þurfa endanlega ákveða sig