Staðkennsla verður að hluta í MA það sem eftir lifir annar
Staðkennsla verður að hluta í MA það sem eftir lifir annar

Nemendur og forráðamenn þeirra hafa fengið bréf frá skólanum um breytt skipulag kennslu frá og með 18. nóvember.

Staðkennsla verður í boði hálfan daginn í 1. og 2. bekk til skiptis, þannig að aðeins verður annar árgangurinn í skólanum í einu. Hinn hluta dagsins sinna nemendur heimanámi eða fá kennslu á netinu. Með þessu móti verður hægt að koma til móts við óskir um meiri staðkennslu en takmarka samt fjölda í skólanum svo auðveldara verði að fylgja öllum sóttvarnarreglum. Erfiðara er um vik að skipuleggja staðkennslu fyrir 3. bekk þar sem um meiri blöndun er að ræða þar milli hópa í valgreinum. Bekkirnir fá engu að síður heimastofur þannig að nemendur geta komið í skólann og lært eða hitt kennara sína. Hægt verður að sjá nýjar stofutöflur í Innu frá og með morgundeginum. 

Ekki er skyldumæting í staðkennsluna enda er litið á þetta sem sérstaka aðstoð við nemendur á lokametrum annarinnar.

Próftafla verður uppfærð í lok vikunnar. Um einhver staðpróf verður að ræða en stefnt er að því að hafa þau eins fá og kostur er. 

Við fögnum því að geta boðið upp á meiri staðkennslu og hlökkum til að fá líf í skólahúsin aftur.