Axel Ernir leiðbeinir starfsfólki MA
Axel Ernir leiðbeinir starfsfólki MA

Starfsfólk skólans er nú í óðaönn að undirbúa komandi vorönn. Verkefnin eru mörg og fjölbreytt en eitt þeirra var að sitja námskeið í skyndihjálp. Flest hafði starfsfólkið sótt námskeið áður og því með grunnþekkingu í skyndihjálp en það er, eins og við vitum öll, nauðsynlegt að rifja upp rétt viðbrögð með reglulega millibili. Mikil ánægja var með námskeiðið en það var á vegum Rauða krossins og leiðbeindendur voru þau Axel Ernir Viðarsson og Anna Sigrún Rafnsdóttir.

Á miðvikudaginn var almennur fyrirlestur um skyndihjálp og svo tók verkleg þjálfun við í kjölfarið á fimmtudegi, þar sem spjótum var m.a. beint að endurlífgun og notkun hjartastuðtækis. Námskeið sem þessi eru ætlað öllum, 14 ára eða eldri, sem vilja læra skyndihjálp og endurlífgun og öðlast öryggi, færni og þekkingu í að veita nærstöddum aðstoð í bráðatilfellum með því að beita á öruggan hátt einföldum aðferðum í skyndihjálp. Upplýsingar um námskeiðin má finna á vef Rauða krossins.