- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Stefán G. Jónsson starfaði við Menntaskólann á Akureyri í tveimur lotum. Fyrst snemma á starfsferlinum og kenndi þá eðlis- og stærðfræði og skyldar greinar. Nemendur sem hann kenndi hafa oft minnst yfirburðaþekkingar hans og menntun hans vakti athygli og aðdáun nemenda en hann var kjarneðlisfræðingur. Stundum styttu nemendur það í Kjarni. Það var kannski lýsandi fyrir hann að fleiri en einu leyti, hann var skarpgreindur og athugull og vildi komast að kjarna hlutanna.
Stefán kom svo aftur til starfa við skólann 2008 og vann til starfsloka. Hann kenndi þær greinar sem hann hafði áður kennt en var einnig við stjórnun skólans sem brautastjóri náttúrufræðibrautanna. Hann var afar samviskusamur í starfi, hafði sínar skoðanir og ekki endilega sammála leiðum sem valdar voru, en hann hafði alltaf hagsmuni nemenda og skólans að leiðarljósi. Hann hafði litla þolinmæði gagnvart nemendum sem honum fannst ekki sinna náminu sem skyldi en þótt hann virtist stundum strangur á yfirborðinu var hann kærleiksríkur gagnvart nemendum þegar á reyndi.
Fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri þökkum við að hann helgaði sig kennslu öll þessi ár og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Minning um góðan dreng lifir.
Karl Frímannsson skólameistari
Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari