Lopabandið á Viðarstauki 2013. Mynd: Sylvía Dröfn Jónsdóttir
Lopabandið á Viðarstauki 2013. Mynd: Sylvía Dröfn Jónsdóttir

Hrefna Logadóttir skrifar.

Menntaskólinn á Akureyri er þekktur fyrir ótal margar hefðir og viðburði. Viðarstaukur er einn af þeim, en það er hugguleg tónlistarkeppni sem TóMA, tónlistarfélag skólans, heldur á hverju ári. Þá geta allir nemendur með bullandi tónlistaráhuga leikið sínar listir á sviðinu í Kvos. Svo er valinn einn vinningshafi.

Undarlegt skólahald

Eins og flestir hafa tekið eftir hefur skólahald verið mjög sérkennilegt undanfarið vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Menntaskólinn á Akureyri, sem er vanur að hafa blómstrandi félagslíf og skemmtun hefur þurft að draga virkilega úr því. Bannað er að koma saman í Kvos í löngu frímínútum, kvöldvaka var live á Facebook og viðburðum eins og árshátíðinni hefur verið frestað. Þetta þykir okkur nemendum leiðinlegt en við reynum samt að líta á þetta með jákvæðum augum og erum óendanlega þakklát fyrir að fá að mæta í skólann.

Tónlistarfélag MA leggur sig í líma við að reyna að finna leiðir til að halda sem flesta viðburði og lausnir á ýmsum vandamálum. Þau segjast stefna á að halda Viðarstauk á næstu önn. Hver veit hvernig það mun fara fram?

Saga Viðarstauks

Viðastaukur var fyrst haldinn árið 1983 þegar félögum úr MA datt í hug að halda innanskóla tónlistarkeppni. Ólíkt söngvakeppni MA, sem einblíndi á söngvara, var Viðarstaukur meira hugsaður fyrir hljómsveitir og alls kyns tónlistaratriði. Þessi nýja keppni var ekki tekin jafn alvarlega og var þar líf og fjör á hverju ári.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var einn af stofnendum Viðarstauks. Spurður út í keppnina sagði hann: „Ég og vinir mínir byrjuðum með Viðarstauk. Nafnið kom svo frá öðrum vini okkar sem var hættur í skólanum en hann talaði alltaf um tónlistarhátíðina Woodstock sem Viðarstauk. Okkur fannst þetta tilvalið nafn á tónlistarkeppni“. Logi keppti sjálfur í keppninni fyrst þegar hún var haldin og ég spurði hann aðeins út í það. „Ég og Sigmundur vinur minn lentum í öðru sæti en þeir sem unnu voru hljómsveit sem kallaði sig Ærufákar“.

Nú krossum við fingur og vonum að við getum skemmt okkur saman á Viðarstauki 2021.

Umfjöllun Hrefnu er hluti af verkefni í menningarlæsi á fyrsta ári. Sjá Nemendur þefa uppi fréttir í MA.