Vilhjálmur B. Bragason var nemandi við MA árin 2004-2008
Vilhjálmur B. Bragason var nemandi við MA árin 2004-2008

Vilhjálmur B. Bragason er mörgum kunnugur fyrir listsköpun sína, jafnt á sviði leik- og tónlistar sem og á ritvellinum. Vilhjálmur, eða Villi eins og hann er gjarnan kallaður, myndar tvíeykið Vandræðaskáld ásamt Sesselíu Ólafsdóttur leikkonu og leikstjóra. Villa er margt til lista lagt því hann hefur einnig fengist við listina að kenna og það í skólanum sem hann nam áður við, Menntaskólanum á Akureyri. Vilhjálmur var nemandi í MA árin 2004 – 2008.

Hvað er eftirminnilegast við árin í MA?

Það er ofboðslega erfitt að ætla að gera upp á milli – það er svo margt sem kemur til greina, en ég held að það sé sennilega besti vitnisburðurinn um snilldina og fjölbreytileikann sem er fólginn í því að vera nemandi í MA. Það var einhvern veginn allt hægt – maður lét sér bara detta eitthvað í hug og framkvæmdi það. Lærdómsríkast af öllu var þó sennilegast að fá að gegna stöðu formanns Hugins síðasta veturinn minn – það var krefjandi ævintýri sem gaf manni víðtæka og dýrmæta reynslu sem hefur nýst mér mun betur en mörg bóklegu fögin – þó að þau séu óneitanlega mikilvæg líka. Og svo auðvitað stemningin, fólkið og vináttan. Það er það sem stendur upp úr. Skólinn hefur alltaf verið veröld út af fyrir sig, veröld sem maður lifði og hrærðist í. Svo fer maður og veröldin breytist í minningar sem verða að eyjum í þessum hafsjó tímans, eyjur sem að enginn hefur aðgang að nema fólkið sem var þarna, þar og þá. Það er ómetanlegt að eiga saman slíkan fjársjóð!

Hefurðu einhver heillaráð til nemenda MA í dag?

Helst kannski það að hafa það í huga að maður verður aldrei fullnuma eða fullorðinn og því ekki hollt fyrir nokkurn mann að eyða lífi sínu í að bíða eftir því. Ég held að alltof margir bíði eftir því og trúi því að við eigum að komast í eitthvað viðvarandi ástand með auknum þroska og aldri, en það eru auðvitað bara falsfréttir. Eða í það minnsta þjóðsaga. Og svo hefur mér lengi verið hugleikið það sem Mark Twain sagði um að „láta ekki skólagönguna standa í vegi fyrir menntun sinni.“

Við þökkum Vilhjálmi fyrir minningarbrot og góð ráð.