Sterkt skólasvæði á Norðurlandi eystra
Sterkt skólasvæði á Norðurlandi eystra

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra standa fyrir kynningarherferð á fjölbreyttu og spennandi námsframboði í framhaldsskólum á svæðinu undir merkjunum Sterkt skólasvæði. Verkefnið er samstarfsverkefni SSNE og Samnor sem samanstendur af fulltrúum frá Framhaldsskólanum á Laugum, Framhaldsskólanum á Húsavík, Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Tröllaskaga og Verkmenntaskólanum á Akureyri.

,,Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á það mikla framboð sem er á bæði verk- og bóknámi á Norðurlandi eystra fyrir námsfólk af öllu landinu. Þá er einnig lögð áhersla á fjölbreytileikann sem er að finna í framhaldsskólum svæðisins, en mikil breidd er í kennslufyrirkomulagi skólanna. Bæði er um að ræða gamla skóla og nýja, skóla með áherslur á hefðir og nýsköpun og svo má finna sitt pláss í sveit, heimavist, stað- eða fjarnámi."

Hér má kynna sér verkefnið betur og horfa á sameiginlegt kynningarmyndband skólanna, sem og kynningarmyndbönd fyrir hvern og einn skóla. Hér gefur að líta kynningarmyndband MA en þar gefa Anna Hlín Guðmundsdóttir, Krista Sól Guðjónsdóttir, Magnús Máni Sigurgeirsson og Stormur Thoroddsen innsýn í skólastarfið og lífið í MA og ber að þakka þeim sérstaklega fyrir að taka þátt í verkefninu.