Jón Garðar Steingrímsson, fyrrverandi nemandi í MA og núverandi framkvæmdastjóri framleiðslu hjá Gen…
Jón Garðar Steingrímsson, fyrrverandi nemandi í MA og núverandi framkvæmdastjóri framleiðslu hjá Genis, fræddi nemendur um líftæknifyrirtækið

Nemendur og kennarar í menningarlæsi fóru í sína reglubundnu ferð til Siglufjarðar í dag í brakandi blíðu. Sem fyrr var atvinnulífið á staðnum í forgrunni, jafnt í nútíð sem fortíð en þó ekki síður menning og mannlíf bæjarins á fallegum haustdegi.

Á milli þess sem nemendur fengu fræðslu um blómaskeið síldarævintýrisins, síldarhrunið og uppbygginguna sem nú á sér stað, gengu þeir um bæinn og leystu hin ýmsu verkefni, hittu heimamenn og nutu veitinga í sólinni.

Heimsókn á Síldarminjasafnið og kirkjuna var sínum stað auk þess sem nemendur skoðuðu gamlar myndavélar á Ljósmyndavélasafninu Saga-Fotagrafica. Á súkkulaðikaffihúsinu Fridu og í Aðalbakarí fengu nemendur sér hressingu og í líftæknifyrirtækinu Genis var boðið upp á fróðlegan fyrirlestur um starfsemi fyrirtækisins.

Rétt eins og með fyrri heimsóknir til Siglufjarðar héldu nemendur og kennarar heim á leið seinni part dags, sælir og glaðir með góða menningarferð og sól í hjarta.