Marta Nordal leikhússtjóri ræðir við nemendur á kjörnámsbraut í sviðslistum í MA
Marta Nordal leikhússtjóri ræðir við nemendur á kjörnámsbraut í sviðslistum í MA

Á kjörnámsbraut skólans í sviðslistum er lögð áhersla á að nemendur kynnist því sem um er að vera í sviðslistum utan skólans.

Skólinn er í góðu samstarfi við starfsfólk Leikfélags Akureyrar og MAk; þau eru dugleg að heimsækja nemendur okkar á sviðslistabraut og eru sum hver líka stundakennarar á brautinni. Í liðinni viku kom Marta Nordal leikhússtjóri í heimsókn og 1. bekkur á sviðslistabraut fór síðan í leikhúsið og fékk að fylgjast með fyrsta samlestri á söngleiknum Chicago, sem Marta leikstýrir. Eva Signý Berger leikmyndahönnuður Chicago kom líka í tíma í hönnun sem Björg Marta Gunnarsdóttir kennir og fræddi nemendur um leikmynda- og búningahönnun. Þess má geta að nokkrir nemendur á þriðja ári á sviðslistabraut verða danshöfundi Chicago til aðstoðar og taka þátt í undirbúningi sýningarinnar.

Nemendur á kjörnámsbrautum (í sviðslistum og tónlist) fóru í námsferð til Reykjavíkur 10. nóvember; þau skoðuðu Borgarleikhúsið og kynntust starfsemi þess og sáu sýninguna Níu líf. Þriðjudaginn 15.  nóvember er þeim svo boðið á danssýninguna Hannah Felicia í Hofi.