- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Guðmundur Oddur Magnússon listamaður og grafískur hönnuður lést þann 3. janúar síðastliðinn. Goddur, eins og hann var gjarnan kallaður, fæddist á Akureyri árið 1955. Hann stundaði nám við MA um skeið í upphafi áttunda áratugarins. Goddur lauk ekki námi við skólann, listagyðjan heillaði svo hann flutti til Reykjavíkur og hóf nám við Handíða- og Myndlistaskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 1980.
Skólablöð í MA og saga þeirra spannar 100 ár en Muninn kom fyrst út árið 1927. Veturinn 1971-72 gáfu nemendur út tólf tölublöð undir öðrum nöfnum eins og Litli-Muninn og Minnsti-Muninn. Goddur var einn af fimmtán sem komu að útgáfu ellefta tölublaðs vorið 1972 en um svipað leyti var hann kosinn í stjórn Myndlistarfélags skólans. Blaðið kom út undir nafninu feiti muninn.
Hver aðkoma Godds var við útgáfu 11. tölublaðs Munins vitum við ekki, ekki frekar en í tilfelli hinna fjórtán sem nefngreindir eru. Ef til vill má finna handbragð hans þegar blaðinu er flett enda áhugi hans á grafík og hönnun kominn fram þegar þarna er komið sögu. Blaðið er hið minnsta uppfullt af teikningum og annars konar myndrænum listaverkum. Blaðið sker sig nokkuð úr þegar kemur að útliti og er ólíkt öðrum tölublöðum í langri sögu Munins.
Feiti muninn er í stærðinni A5 og blaðið er þykkt, tæplega hundrað blaðsíður að lengd. Rauð og hvít kápan lítur út eins og umslag utan um bréf sem ætlað er feita munin en stílað á nemendur MA sem viðtakanda (c/o). Á„umslaginu“ er frímerki frá útgáfuárinu 1972 með mynd af Herðubreið og Akureyrarstimpil. Aftan á umslaginu er ritað „afs. andlegir amlóðar M.A.“
Auk myndverka má finna í blaðinu athyglisverðar greinar, sögur og ljóð. Efni feita munins litast nokkuð af veru erlends herliðs á Íslandi, miklu deilumáli innan veggja skólans sem og í þjóðfélaginu á þeim tíma sem blaðið kom út. Þá er í blaðinu athyglisvert viðtal sem þrír nemendur tóku á Hótel KEA við þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Magnús Kjartansson. Í spjalli þeirra kemur eitt og annað fram sem spegla má við atburði líðandi stundar. Feiti muninn kom út í 800 eintökum.
Hér er slóð á timarit.is þar sem hægt er að skoða blaðið. Nú er spurning hvort einhver sem þekkir til verka Guðmundar Odds Magnússonar á hans yngri árum komi auga á myndverk eftir hann frá námsárum hans í MA.