Heimavist MA iðaði af lífi í verkfalli BSRB haustið 1984
Heimavist MA iðaði af lífi í verkfalli BSRB haustið 1984

Haustið 1984 voru nemendur í 1. bekk fengnir til að deila reynslu sinni af skólavist í MA með lesendum Munins. Aðeins nokkrar vikur voru liðnar af skólaárinu þegar nýnemar settu hugleiðingar sínar á blað. Afraksturinn var frásögn þriggja nemenda með ólíkan bakgrunn. Einn var Akureyringur, annar hafði reynslu af skólavist erlendis og sá þriðji var fulltrúi landsbyggðarinnar.

Skólinn fínn staður

Heimamaðurinn Lúðvík Elíasson, sem var nemandi í 1C, þekkti vel til skólans áður en skólastarf hófst. Vinir og kunningjar sem höfðu stundað nám í MA lögðu honum lífreglurnar svo fátt kom honum á óvart þegar hann hóf þar nám.

Ef ég á að fara að bera saman skólann okkar og G.A., en þaðan kem ég nú, þá get ég ekki sagt annað en að þetta er mun skemmtilegri staður á allan hátt. Námsefni er að vísu allt töluvert þyngra og mun hraðar farið yfir, en það er ekkert nema gott um það að segja. Skólinn okkar er sem sagt að mínum dómi fínn staður.

MA ekki strangur skóli

Ólafur J. Sigurðsson var nemandi í 1D. Um tíma hafði hann verið í skóla í Luxemborg þar sem skólabragur var með nokkuð öðru sniði en tíðkaðist á Íslandi. Hann lýsir því hvernig hann hugsaði í flugvélinni á leiðinni til Akureyrar hvers lags skóli MA væri og hvort hann líktist L.C.E., Lycée Classique d'Echternach, Klassíska Menntaskólanum í Echternach i Luxemborg.

Í skólanum er bara heimavist fyrir stráka - en allt öðruvísi en hér. Þetta eru fjórir salir sem hýsa 70 manns hver. Á ganginum eru svo skápar, einn handa hverjum. Heimavistin er opin frá kl. 7 til 8.30 og 11.30 til 21.30. Hún er annars lokuð og þeir sem koma of seint inn eru áminntir. Aðgangur er bannaður þeim sem ekki búa á vist og mötuneyti vistarbúa og utanvistarnemenda er aðskilið. Í stórum lestrarsal eru borð handa nemendum þar sem þeir geta lært og geymt bækur sínar. Heimavistinni stjórnar heimavistarstjóri og býr þar. Ég þarf ekki að lýsa M.A. hér, lesendur þekkja hann væntanlega, en M.A. er ekki strangur skóli miðað við það sem ég hef kynnst i L.C.E. Og eitt er víst að ég skil ekki fólk sem segir að hér sé leiðinlegt.

Verkfallið þjappaði fólki saman

Sigþór Einarsson frá Stykkishólmi var nemandi í 1D. Hann hafði átt sér þann draum í mörg ár að komast í Menntaskólann á Akureyri. Sigþór lýsir því hvernig draumurinn rættist þegar hann fékk jákvætt svar frá skólanum í sumarlok. Hann hafði þó vissar áhyggjur af því að hleypa heimdraganum og hefja nýtt líf á heimavist skólans. Áhyggjurnar voru óþarfar því hann var fljótur að kynnast fólkinu á vistinni. Og verkfall þá um haustið hafði góð áhrif á andrúmsloftið á heimavistinni að mati Sigþórs.

Hið margumtalaða verkfall tel ég frekar hafa þjappað fólki saman en hitt, m.a. vegna þess að þá var ekkert sjónvarp. Þá var ekki annað að gera en sameinast um spil eða slá saman í einn eða fleiri poka af kartöfluflögum og ídýfu og borða saman inni á einhverju herberginu. Mér fannst mórallinn strax allt öðruvísi hér en heima. Skólinn er til dæmis skemmtilegri hér. Hann er líka erfiðari, en hér stefnir maður þó að einhverju ákveðnu markmiði. Í grunnskóla er aldrei annað gert en tönnlast á sömu atriðunum, en ekki gefið neitt ákveðið markmið eins og t.d. stúdentsprófið er. Hins vegar finnst mér gæta of mikillar svartsýni hjá krökkunum hér í sambandi við að ná prófum ... Mér finnst strax hálfleiðinlegt að hugsa til þess að þurfa einhvern tíma að fara héðan, svo kemur þetta mér fyrir sjónir eftir fyrstu kynni. Sem sagt: Mér finnst frábært að vera hérna og ég vona að svo verði áfram.

 

Heimild: Muninn 57. árgangur, 1. tbl.