Til allrar hamingju reykja hvorki kennarar né nemendur innan veggja skólans auk þess sem brunavarnir…
Til allrar hamingju reykja hvorki kennarar né nemendur innan veggja skólans auk þess sem brunavarnir eru öflugri nú en árið 1972 þegar greinin var skrifuð

 

Kæri Sísofandi.

Í hvert sinn, er ég lít hina undurfögru byggingu Menntaskólans á Akureyri, fyllist ég í senn lotningu og stolti vegna virðuleika hússins og framsýni þeirra, er það byggðu. Ó, þvílíkt minnismerki um stórhug aldamótakynslóðarinnar! Þau verðmæti, sem geymd eru innan veggja hússins, eru ómetanleg og þau verður að umgangast af hinni mestu nærgætni. Því miður hef ég grun um að þeir sem starfa í húsinu geri sér ekki grein fyrir því, hvar þeir eru staddir. Það yrði öðru vísi upplitið á þeim, ef þeir vöknuðu einhvern morguninn og sæju hið aldna hús brunnið til grunna. Hugsið ykkur það áfall, sem andlegt líf Íslendinga yrði fyrir og öll þau tár, sem mundu vera felld. Þetta er aldin bygging, sem brynni upp til agna á svipstundu, ef þar yrði eldur laus, og þá yrði of seint að byrgja brunninn. Ég efast um, kæru lesendur, að þið vitið, hve gífurleg hættan er. Í húsinu starfa nefnilega nokkrir menn, sem hafa eingöngu það markmið að brenna húsið og drepa um leið öll þau mestu stórmenni, sem eiga að erfa landið. Í suðurenda hússins eru hýbýli nokkur, er kallast í daglegu tali kennarastofa. Þar koma saman nokkrum sinnum á dag helztu þrælar nautnadeildar Frímúrarareglunnar á Akureyri. — Þessir menn eru stórhættulegir og það sem verra er, lúmskir með afbrigðum. Þið haldið kannski, að það sé tilviljun að þeir stunda þessa iðju sína í frímínútum, nei, sko, það er aðalbrellan. Eldurinn á nefnilega að koma upp í byrjun kennslustundar og fá að breiðast út meðan ringulreiðin er sem mest og engin von á skipulegri björgun. Eins og allir vita, eru engir brunakaðlar á efri hæðinni, og þó svo væri, kunna engir að nota þá. Hlýtur að teljast óeðlilegt, að einn af beztu starfsmönnum skólans, sem er háskólamenntaður í brunavörnum, skuli látinn starfa að gæzlu óstýrilátra unglinga, sem eru þar að auki þó nokkuð drykkfelldir.

Það er augljóst, að í þessu máli er skynsemin ekki látin ráða. Nauðsynlega vantar kennslu í þessari grein og er það skilyrðislaus krafa, að áðurnefndur maður hætti núverandi starfi sínu og taki upp fulla kennsla í þessari grein og bílaklapp sem valgrein. Að vísu er eitthvað til, sem heitir viðvörunarkerfi, en það er vitanlega aðeins til að auka móðursýki nemenda, ef svo líklega skyldi fara, að eldur yrði laus. Þegar eldur verður laus og breiðist út frá suðurenda skólans, ryðjast allir í átt til útgöngudyra í algjöru skipulagsleysi og allar leiðir stíflast, auk þess sem áreiðanlega fjölmargir troðast undir og kremjast til bana undir skóhæl húsmanna. Auk þess mun áreiðanlega fjöldi manns skerast alvarlega á glerbrotum, en í raun og veru skiptir þetta engu máli, því að öll súpan mun án nokkurs efa bíða þarna píslarvættisdauða. Það er aðeins tímaspursmál, hvenær atburður þessi verður að óbreyttu ástandi.

Vér nemendur verðum því að grípa í taumana og stöðva þessa samvizkulausu reykspúandi nautnaseggi í ætlunarverki þeirra með viðeigandi ráðstöfunum.

P. S. Í frönsku stjórnarbyltingunni voru allir þjóðhættulegir andstæðingar hinnar sigursælu byltingar hálshöggvnir.

Ein taugaveikluð úr 4. B.

 

Heimild: Litli-Muninn 44. árgangur, 7. tbl.