Teikningin af Rúnu sem birtist með viðtalinu er verk Örlygs Sigurðssonar (1920-2002). Upprunalega my…
Teikningin af Rúnu sem birtist með viðtalinu er verk Örlygs Sigurðssonar (1920-2002). Upprunalega myndverkið (1945) er til sýnis í Gamla skóla.

Kristrún Júlíusdóttir (1882-1966) tók til starfa við skólann árið 1912. Rúna í Barði eins og hún var gjarnan kölluð skúraði gólfin í Gamla skóla í tæp 50 ár eða til ársins 1960. Með tíð og tíma varð hún táknmynd trúmennsku og iðjusemi. Áratugum saman mætti hún til starfa í bítið morgun hvern og vann störf sín í hljóði fram á kvöld.

Í febrúar 1960 tóku tveir nemendur skólans viðtal við Rúnu sem birtist í skólablaðinu þá um vorið. Þeir mættu á kennarastofuna með „blýantinn klemmdan bak við hægra eyrað og hraðritunarblokkina í rassvasanum“, tilbúnir að spyrja Rúnu spjörunum úr. Ekki stóð á Rúnu að veita viðtal en hún bað ungu blaðasnápana að bíða andartak, hún ætti eftir að ganga frá í einni kennslustofunni.

Viðtal blaðamanna Munins við Kristrúnu Júlíusdóttur er merkileg heimild um merkilega konu sem stendur á tímamótum. Við skulum rifja upp samtal þeirra fyrir rúmum 65 árum síðan.

„Hvenær ert þú fædd, Kristrún?" „Ég er fædd árið 1882, að Barði hér á Akureyri. Það hús stóð hér fyrir neðan skólann á sama stað og við Jakobína systir mín búum nú.“

„Hvenær fórst þú að starfa hér við skólann?“ „Það var um 1912, að ég hóf vinnu hér. Þá var skólinn ennþá gagnfræðaskóli, og Stefán Stefánsson skólameistari."

„Voru ekki allt aðrar kringumstæður þá en nú eru?“ „Jú, það má nú segja. Til dæmis voru kolaofnar í öllum kennslustofum og herbergjum nemenda, og þá urðum við að kveikja upp í ofnunum í stofunum klukkan sex á morgnana. Við uppkveikjuna var notaður mór og steinolía, síðan var eldinum haldið við með kolum. Nemendur urðu sjálfir að sjá um, að kol væru í herbergjum þeirra, en hitt þurftum við að annast. í herbergjum nemenda var kveikt upp, áður en þeir komu úr kennslustundum. Þá var líka þvottur nemenda þveginn í höndunum niðri í kjallara. Þrjár eða fjórar stúlkur önnuðust það, og urðu þær að fara á fætur klukkan þrjú á nóttunni til að koma þvottinum af yfir daginn. Þá voru einnig kolaofnar í leikfimihúsinu, sem var eina íþróttahús bæjarins á þeim tíma. Þá kenndi Lárus Rist leikfimina hér, en Magnús Einarsson kenndi söng á Sal. Þá var til undirleiks notað orgel, sem þar stóð. Ekki voru haldnir neinir dansleikir á Sal, en dansað var í leikfimihúsinu við harmonikuspil."

„Var ekki eitthvað af kvenfólki í skólanum, þá eins og nú?“ „Jú, mikil ósköp. Þær bjuggu á suðurvistum, og þar bjuggu einnig piltar, en aftur á móti bjuggu aðeins piltar á norðurvistum."

„Það er sagt vera reimt hér, Kristrún. Hefur þú nokkurn tíma orðið vör við þess háttar þann tíma, sent þú hefur starfað hér?“ „Nei, ég hef aldrei orðið vör við þess háttar, enda trúi ég ekki á slíkt. En það kom fyrir, að skólasveinar hlupu hvítklæddir eftir göngunum og gerðu draugagang. Eitt sinn gerðu nokkrir piltar slíka reimleika, en það komst upp, og Sigurður skólameistari varð reiður og fyrirbauð slík ærsl.“

„Veizt þú, Kristrún, hvernig á því stendur, að húsin, sem standa hér út undan skólanum, eru nefnd beitarhúsin?" „Jú, ég held að þannig hafi staðið á því, að laust fyrir 1940 varð skólinn að taka á leigu hæð undir kennslustofu í húsi því, sem Ólafur læknir býr nú í. Þar fór kennsla fram í tvö til þrjú ár. Eftir það keypti skólinn næsta hús við, þar sem nú býr Árni Kristjánsson kennari, og voru gerðar þar þrjár kennslustofur. Þar var kennt í tæp tíu ár. Sjálfsagt hefur svo einhver góður maður komið því á framfæri, að þetta væri nokkurs konar útbeit frá Menntaskólanum, og þetta nafn síðan fests við húsin.“

„Hvert er nú aðalstarf þitt hérna?“ „Ég skúra hér fjórar kennslustofur og kennarastofuna."

„Skúrarðu nú kennarastofuna eins oft og kennslustofurnar?“ „Já, ég skúra allar stofurnar daglega, og víst er um það, að kennararnir skíta sízt minna út en nemendurnir.“

Við þökkum Kristrúnu fyrir greinargóð svör, og kveðjum svo þessa merku konu, sem unnið hefur skólanum óslitið í hartnær hálfa öld, og vonum, að skólinn megi njóta starfskrafta hennar sem lengst.

K. Jóh., L. Kr.

 

Muninn 32. árgangur, 3.-4. tbl.