Guðlaugur Þór Þórðarson var ritstjóri Munins árin 1984-1986
Guðlaugur Þór Þórðarson var ritstjóri Munins árin 1984-1986

Bekkjarfélagarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Ármann Kr. Ólafsson voru saman í ritstjórn Munins veturinn 1985-1986. Guðlaugur var ritstjóri en sagði skilið við ritstjórastöðuna um haustið eftir tveggja ára starf. Ármann tók við og stýrði blaðinu veturinn 1986-1987. Í desember-blaði Munins árið 1986 birtist frásögn undir yfirskriftinni „Þá hló dómarinn svo mikið að hann gat ekki blásið í flautuna“. Hér verður nokkrum vel völdum svipmyndum brugðið upp úr viðtalinu við hinn tæplega tvítuga fráfarandi ritstjóra Munins.

Nafn: Guðlaugur Þór Þórðarson

Fæddur: já, mikil ósköp. Ég er fæddur sama dag og margir aðrir merkismenn og konur. Má þar nefna félaga Leonid Breznev, Edith Piaf, Gústav V, Limahl og Fúsa trommara í Rikshaw. Við Fúsi erum að vísu þeir einu sem eru fæddir 1967.

Uppáhaldsmatur/drykkur: Hrísgrjónagrautur og undanrenna.

Hvar ertu í pólitík? Uppi í Kaupangi!!!!!!

Hvernig er skólaferill þinn til þessa?

Nú, ég byrjaði í Grunnskóla Borgarness, í sex ára deild að sjálfsögðu, og var þar alveg upp í níunda bekk. Það eru nú frekar fáir framhaldsskólar í Borgarnesi þannig að ég kom hingað til Akureyrar eftir níunda bekk, hóf nám í MA og hef verið hér síðan.

Af hverju valdir þú MA, af hverju ekki skóla í Reykjavík?

Ég vissi að á Akureyri væri góður menntaskóli og það er oft frekar erfitt að komast í Reykjavíkurskóla, nema þá helst í fjölbrautaskóla. Einhver skyldmenni mín höfðu líka verið í MA og létu mjög vel af þannig að valið var ekki erfitt.

Hvernig líkar þér við MA?

Mjög vel, MA er rótgróin stofnun sem er í takt við tímann. MA er mjög vel í stakk búinn og örugglega með betri framhaldsskólum í landinu. Kennararnir eru yfir höfuð mjög góðir og einn þeirra hefur vit á að aka Volvo (smá grín).

Hvernig finnst þér félagslífið i MA?

Ég held að félagslífið, svona á heildina litið, sé mjög gott. En það er bara svo skrýtið að fólk kennir alltaf skólafélagsstjórn um ef það er ekki ánægt með félagslífið en gleymir því að félagslífið byggist fyrst og fremst á hinum almenna nemanda. Aðstaðan er fyrir hendi, þeir sem vilja gera eitthvað hafa nóga möguleika.

Ert þú félagslyndur, hefurðu haft mikil afskipti af félagsmálum í gegnum skólaárin?

Já, það verður að segjast að ég hef verið þó nokkuð félagslyndur, og er enn. í Borgarnesi byrjaði ég snemna að djöflast í flestu sem hét og gat kallast félagslíf, sem að vísu var sáralítið. En eftir að ég kom MA hef ég verið tiltölulega virkur,ef undan er skilinn fyrsti veturinn því þó ég hafi eins og margir aðrir fyrstu bekkingar skráð mig í velflest félögin þá fór mestur hluti ársins í að kynnast og upplifa stórar stundir með Snorra fóstbróður mínum Sturlusyni. Í öðrum bekk var svo vendipunkturinn hjá mér því þá var ég kosinn ritstjóri skólablaðsins, Munins. Margir töldu það algjört glapræði að fara í framboð, ég bara í öðrum bekk. En ég hafði góða stuðningsmenn og þetta hafðist. Ég var ritstjóri í 2 ár. Ritstjórnarstöðunni fylgdi svo sæti í skólastjórn og því sat ég í skólastjórn í 2 ár.
Fyrir utan það að vera ritstjóri þá hef ég náttúrulega verið í ýmsu. Ég vil helst nefna setu mína í stjórn Slönguspilarafélagsins. Félagið gerði að vísu aldrei neitt, en það er nú bara aukaatriði. Nú, síðasta vetur bauð ég mig fram til formanns, en náði ekki kjöri og snéri mér að öðru.

Já, þá erum við komnir að hápunkti viðtalsins. Þú spilaðir sögufrægan leik hér á Akureyri í sumar, gegn KA, og skoraðir þar mjög fallegt en umdeilt mark. Geturðu sagt örlítið frá því?

Þetta var vægast sagt mjög neyðarlegt. Ég hélt satt að segja að hápunktur knattspyrnuferils míns hefði verið þegar ég greip boltann inni í vítateig á móti Selfossi í leik í 5.flokki. Þá hló dómarinn svo mikið að hann gat ekki blásið í flautuna. En sú varð nú ekki raunin. Þessi Akureyrarferð í sumar var óhappaferð mikil, ég byrjaði á því að gleyma öllu dótinu mínu á bensínstöðinni heima. Svo kom leikurinn. Fyrir leik á móti Njarðvík fyrr um sumarið sagði ég við strákana að ég ætlaði mér að skora á móti Njarðvík. Það tókst. Jæja, ég ákvað að nota sama bragð á móti KA, sagði strákunum að ég væri alveg staðráðinn í að skora á Akureyri. Það tókst. Friðfinnur [Hermannsson], bakvörður KA, brunaði upp kantinn og gaf fyrir. Ég var staddur rétt fyrir utan eigin vítateig, fékk boltann beint á mig og ákvað að bjarga í horn eða innkast, þrumaði eins og ég gat í boltann en hann lenti á utanverðum fætinum og skrúfaðist upp í samskeytin fjær. Markmaðurinn gerði örvæntingafulla tilraun til að bjarga en þetta var gjörsamlega óverjandi. Þetta var geysilega fallegt mark og mesta synd að þetta skyldi vera sjálfsmark. Það hlógu náttúrulega allir nærstaddir nema ég. Mér leið vægast sagt mjög illa, þetta var alveg rosalega neyðarlegt. Dómarinn kom meira að segja til mín og sagði mér að þetta væri bara eitthvert fallegasta mark sem hann hefði séð!!! Ég fékk að heyra þetta alveg endalaust i Spánarferðinni. Svo hélt ég nú að allir væru búnir að gleyma þessu núna en þá troða þau þessu leiðindaatviki inn á Árshátíðinni, þökk sé vinkonu minni, henni Guðfinnu sundkonu.

Nú, svo við breytum nú um umræðuefni. Hvað gerir þú fyrir utan skólann?

Ég er formaður Varðar, Félags ungra Sjálfstæðismanna, og mestur tími minn fer í það.

En hvað finnst þér um pólitíkina i skólanum?

Ég held að hún sé bara mátuleg. Ég tel að pólitík eigi ekki að blandast í sjálf skólamálin. Ég held að það sé ekki gott fyrir félagslífið í heild, en ég tel að pólitísk félög eigi tvímælalaust rétt á sér, ekki síst eftir að kosningaaldurinn var lækkaður niður í 18 ár. Þá má koma meiri fræðsla um flokka og stefnur.
Það sem mér finnst vanta í stjórnmálaumræður hér í skólanum er rökræða um grundvallarhugsjónir og stefnur, í stað umræðna sem einkennast af skítkasti og aðfinnslum um aukaatriði.

Finnst þér nemendur koma með mótaðar skoðanir í skólann?

Þó flestir hafi einhverjar hugmyndir þegar þeir koma í skólann þá mótast stjórnmálaskoðanir oftast á menntaskólaárunum. Flestir eru komnir á ákveðna línu við útskrift burtséð frá því hvort það endist þeim út lífið.

Finnst þér kennarar vera með áróður í skólanum?

Því er ekki að leyna að mér finnst þeir stundum fjalla á óvarkáran hátt um viðkvæm mál og fara stundum með eigin skoðanir eins og staðreyndir. En það heyrir sem betur fer til undantekninga.

Eitthvað að lokum?

Ég vil biðja bekkjarfélaga mína í 4.f að byrja nú að mæta tímanlega í skólann og stunda námið af kappi. Sérstakar kveðjur til Ármanns og farðu nú að byrja á ritgerðinni þinni!!!

 


Heimild: Muninn 59. árgangur, 2. tbl.