Tvö málverk af Sigrid Undset og Sigurði Guðmundssyni. Myndin er samsett.
Tvö málverk af Sigrid Undset og Sigurði Guðmundssyni. Myndin er samsett.

Sigrid Undset (mynd) var fædd árið 1882. Hún var rithöfundur, fædd í Danmörku en flutti til Noregs þegar hún var tveggja ára. Sigrid hlaut Nóbelsverðlaun fyrir bókmenntir árið 1928. Meðal þekktra verka hennar eru Jenny frá árinu 1911 og Kristin Lavransdatter, þríleikur sem kom út á árunum 1920-22.

Sigurður Guðmundsson (mynd) var fæddur árið 1878. Eftir nám starfaði Sigurður við kennslu n.t.t. á árunum 1911-1921. Í framhaldinu varð hann skólameistari Gagnfræðaskóla Akureyrar sem varð Menntaskólinn á Akureyri árið 1930. Sigurður var fyrsti skólameistari MA og gegndi hann því starfi til ársins 1947.

Árið 1931, þremur árum eftir að frú Undset tók við Nóbelsverðlaununum, ferðaðist hún um Ísland. Hún var áhugasöm um Íslendingasögurnar og kunni skil á þeim - svo vel að hún skákaði jafnvel hinum færustu Íslendingum á því sviði. Sigrid kom til Akureyrar í júlí með skipinu E.s. Nova. Sigurður tók á móti henni. Landsstjórnin sá um að útvega fararskjóta fyrir hinn tigna gest og nokkra leiðsögumenn. Sigurður var í þeim hópi. Sigurður og Sigrid ferðuðust saman inn Eyjafjörð og í Hörgárdal. Sigurði var kunnugt um mikinn áhuga Sigrid á Íslendingasögunum og taldi því skynsamlegt að dusta rykið af skruddunum, jafnvel þó sjálfur væri hann vel að sér í heimsbókmenntunum. Sigurður lét hafa eftir sér síðar að hann hefði rifjað upp Víga-Glúmssögu áður en að ferðalaginu kom „svo hann gæti fremur talist gefa en þiggja.“ Líklega hefur Sigurður lesið rétt í stöðuna því Sigrid þekkti svo gott sem hvern einasta sögustað í Eyjafirði og í Hörgárdal. Árið eftir Íslandsförina kom út bók eftir Sigrid Undset. Hver veit nema upprifjun Sigurðar á Víga-Glúmssögu hafi fundið sér leið inn í bókina The Burning Bush eftir Nóbelsskáldið árið 1932?

Sigurður gaf út tvö rit eftir að Sigrid sigldi frá Íslandi; Heiðnar hugvekjur og mannaminni árið 1946 og Á sal árið 1948. Málverkið á meðfylgjandi mynd af Sigurði er málað árið 1929 af Freymóði Jóhannssyni (1895-1973). Málverk Freymóðs er til sýnis í Gamla skóla.

Sigrid Undset flúði land árið 1940 vegna andstöðu hennar gegn nasismanum og hernámi Þjóðverja í Noregi. Hún snéri á heimaslóðir í stríðslok árið 1945. Málverkið af Sigrid er málað árið 1923 af Harald Slott-Møller (1864-1937).

Sigrid og Sigurður létust árið 1949.