Frásögn strandaglóps birtist í Munin 17. febrúar 1941
Frásögn strandaglóps birtist í Munin 17. febrúar 1941

Eftirfarandi frásögn birtist í skólablaði MA í febrúar árið 1941.

Strandaglópur

Sumir menn eru strandaglópar allt sitt líf. Allt, sem þeir takast á hendur, lendir í öngþveiti, Það er eins og líf þeirra í heild hafi verið kjörið til að mæla skapanna málum. Ef til vill er þessu svo farið með hvorn tveggja okkar, en það getur og verið, að hvorugur okkar sé ofurseldur þessum forlögum. Ég er afar ánægður með sjálfan mig. Ég læt hinn þunga örlagastraum bera mig að hinu skapaða marki. Gæfa mín er þó að miklu leyti komin undir því, að ég láti ekki glepjast af flaumnum í kring, en þér að segja vill það nú ganga skrikkjótt.

Það var hérna í haust þegar ég ætlaði sunnan úr höfuðstaðnum til Akureyrar, sem ég varð seinast strandaglópur. Ég vil svo gjarnan segja þér, hvernig það atvikaðist. Það var föstudagskveld. Ég háttaði glaður í bragði og hugði gott til morgundagsins, því að þá ætlaði ég til Akureyrar með nýrri upphitaðri bifreið frá Steindóri. Já,og auðvitað var hún með útvarpi, en undanskilið var að það væri aldrei í lagi.

Mér gekk illa að sofna. Ég lokaði augunum og bældi mig niður í koddann. En allt kom fyrir ekki. Skyldi ég nú ekki vakna of seint? Það var fyrst, er ég hafði þulið Faðirvorið aftur á bak og áfram ásamt nokkrum kröftugum versum úr Hallgrímssálmum, að mér tókst að festa blundinn. Ekki svaf ég þó fastar en svo, að ég hefði áreiðanlega heyrt saumnál detta í 10 metra fjarlægð. Tikk - takk klukkunnar á veggnum varð að undarlega espandi hljóði í eyrum mínum. Seinn - seinn, seinn - seinn sagði einhver úti í næturhúminu. Ég spratt upp með andfælum. Guði sé lof! Það var bara klukkan.

Loks sló klukkan 6. Ég þaut fram úr rúminu, klæddist í skyndi og vakti vin minn, sem svaf í næsta herbergi. Hann ætlaði að fylgja mér til skips. Ég var hinn rólegasti , því að skipið, sem ég ætlaði með upp á Akranes, fór ekki fyrr en klukkan 7. Ég át og drakk og lék á als oddi. Klukkan varð 6,4o, og enn drakk ég og át. Ég hringdi svo á 1720. Ekkert svar. Ég þreif ''Vísí’". Jú, það var svo sem ekki um að villast. - Næturakstur annast B.S.R. Ég hringdi aftur og aftur, en árangurslaust.

Nú var þolinmæði mín þrotin. Ég hringdi á lögreglustöðina og spurði þann, sem í símann kom, með nokkrum vel völdum orðum, hverju þetta sætti. En annað hvort hefir mér misheirzt, eða laganna þjónar tíðka þau orð, sem lítt eru notuð í daglegu tali. - Ég var jafn nær. - Nú átti ég einskis annars úrkosti en leggja í hann gangandi.

Ég þreif hatt minn og skundaði út. Vinur minn, sem heitir Sakarías og er því einn af minni spámönnunum, kom á hæla mér. Við stikuðum stórum. Þetta gæti svo sem allt blessazt ,kæmi ekkert sérstakt fyrir. Bíðum við. Þarna kom einhver á móti okkur eftir glymjandi stræti hinnar sofandi borgar. Já, og það meira að segja kvenmaður. Sú virtist nú ekki af verri endanum. Hún var meir en lagleg. Hún var hrífandi, töfrandi. Slík fullkomnun sköpunarverksins hélt ég, að væri aðeins til sem draumadís. Hún fór fram hjá, en ég stansaði orðlaus af hrifningu. Orðlaus er annars of vægt til orða tekið. Ég stóð sem negldur við stéttina og góndi eftir stúlkunni eins og tröll á heiðríkju. Ég veit ekki hversu lengi ég stóð svona, en hún var horfin þegar ég heyrði Sakarías segja, ''Nú hvað er þetta maður, ætlarðu að missa af skipinu? Þetta er bara hún Stína sæta, sem vinnur hér í búð á Laugaveginum". Ég tók viðbragð án þess að segja orð og linnti ekki sprettinum, fyrr en ég kom niður á bryggju. En hvert í hoppandi! Skipið var komið um 50 metra frá landi. Klukkan var ½ mínútu yfir 7. Ef þú hefir séð flogaveikan rakka, þá getur þú ef til vill gert þér nokkra hugmynd um tilburði mína og allar aðfarir næstu mínúturnar. Ég stökk af steinbryggjunni og út á aðra bryggju þar við hliðina, því að hún skagaði lengra út á sjóinn. Ég staðnæmdist á bryggjusporðinum og hljóp þar og pataði í allar áttir, jafnframt því sem ég hrópaði fullum hálsi til skipsins, sennilega með það fyrir augum að snúa því við til að sækja einn volaðan strandaglóp, ef ég hafði á annað borð nokkuð sérstakt í huga. En eigi höfðu þessi tilþrif mín minnstu áhrif á stefnu skipsins. En nú tók ég allt í einu eftir köllum og bægslagangi fyrir aftan mig. Það sló heldur en ekki flemtri á mig, er ég leit við, því að í nokkurra skrefa fjarlægð voru 2 brezkir hermenn otandi að mér byssustingjum og talandi mér óskiljanlegt mál. En hafi nokkuð mátt marka af hreim orðanna hvað þeir sögðu, þá voru það áreiðanlega ekki neinir líknstafir, því að um bryggjuna var bönnuð öll umferð. Ég skauzt burt og mátti þá eigi mæla, en án afláts bergmálaði í huga mér: Svo fór um sjóferð þá. Sakarías sagði að þetta væri mér mátulegt fyrir að glápa á eftir hverri stelpu, sem á vegi mínum yrði.

Ég þarf víst ekki að geta þess, að ég var fremur stirðlyndur dag þennan. Ég var strandaglópur, og allt virtist mér ómögulegt og ranghverft. Hamfarir hugans vildu einkum leita út í ljóði. Ýmist ætlaði ég að yrkja drápu þrungna helvízkum ógnum, eða ég byrjaði á ástaróði. En sem betur fór varð það aðeins upphaf án endis.

Um tíuleytið daginn eftir var ég kominn á fleygiferð á leið norður í land. Ég var í sólskinsskapi, skal ég segja þér. Í sætinu við hliðina á mér sat Stína. Hún ætlaði til Akureyrar. -----

Allt er gott, þá endirinn allra beztur verður.

A.B.C.

 

Heimild: Muninn 14. árgangur, 2. tbl.