Ritstjórn ma.is óskar nemendum, starfsfólki og velunnurum skólans gleðilegs sumars
Ritstjórn ma.is óskar nemendum, starfsfólki og velunnurum skólans gleðilegs sumars

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga kvað skáldið Halldór Laxness haustið 1922. Víst er að nú tæpum hundrað árum síðar erum við öll í þörfinni fyrir betri tíð eftir langan og erfiðan vetur. Við gleðjumst yfir sumarkomunni og sjáum farfugla, blómlegan gróður og samverustundir með vinum og fjölskyldu í hillingum.

Á degi sem þessum hugsum við gjarnan til liðinna stunda. Okkur finnst sem ólíkir tímar kallist á, svo skil milli fortíðar og nútíma verða ógreinileg. Eftirfarandi pistill endurspeglar þetta ágætlega. Hann birtist í Munin, skólablaði MA, vorið 1985.

Ritstjórn ma.is óskar nemendum, starfsfólki og velunnurum skólans gleðilegs sumars.

-

Vorið er komið og grundirnar gróa.

Þessi vetur sem nú hefur kvatt okkur mun sennilega lengi í minnum hafður vegna mikilla truflana sem orðið hafa á kennslu og ekki siður félagslífi í þessum skóla og fleirum.

Það er ekki auðvelt starf sem fráfarandi stjórn Skólafélagsins hefur haft með höndum. Að reyna að halda félagslífi i skóla þegar stórum hluta skólaársins er hreinlega sleppt úr er ekkert grín, enda hefur ekki reynst mögulegt að halda uppi hefðbundnu félagslífi og aðsókn oft verið slæm. Reyndar er mesta furða hvað sum félög hafa þó starfað vel og má þar nefna að stærsta félag innan Skólafélagsins, Í.M.A., hefur unnið mjög vandað og gott starf og að Listadaganefnd hefur haldið eins fast og unnt var við sínar fyrirætlanir.

En þó að á móti blási þýðir ekki að gefast upp og leggjast í kör. Nýrrar stjórnar og nemenda biður erfitt en jafnframt heillandi starf næsta vetur en ljóst er að leiðin getur aðeins legið upp á við. Okkar er að ákveða hallatöluna.

Svo að ég slái nú aðeins á léttari strengi er rétt að ég greini frá því sem spámaður blaðsins sagði mér, en eins og öll betri blöð hefur Muninn einn slíkan í þjónustu sinni. Þessi spámaður, sem við skulum bara kalla Atla, beitir mjög sérstæðri en þó gamalli tækni við sínar spár, nefnilega þeirri að hann ræður þær af flugi og annarri hegðun hjá þeirri fuglategund sem Íslendingar miða sumarkomuna við, lóuna. Lóan er, eins og segir í kvæðinu eftir skáldið, þekkt fyrir það að segja mönnum fyrir um ókomna atburði þannig að í rauninni er Atli aðeins tengiliður okkar við lóuna.

Skilaboðin eru eitthvað á þessa leið: Einhverja ótilgreinda helgi um mitt sumar munu nemendur M.A. og margir margir fleiri flykkjast af einhverjum óskiljanlegum hvötum austur á bóginn og safnast fyrir á einum og sama staðnum. Þessi staður er ekki nánar tilgreindur en hann ku eiga eitthvað skylt við skógrækt og vatnaskrímsli. Þarna á þessum fyrirheitna stað munu ungmennin, að sögn lóunnar, stíga villtan dans og sameinast í einhverskonar óskilgreindum skapandi félagsanda, hugmyndir munu fæðast og samstarfsandi eflast.

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti, en einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að þetta sé fyrirboði öflugs félagslífs í M.A. og fleiri skólum næsta vetur.

Gangi okkur öllum vel í prófunum,

GLEÐILEGT SUMAR, með formannskveðju,

Eggert Tryggvason

 

Heimild: Muninn 57. árgangur, 3. tbl.