- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Ætla mætti að umfjöllun um kvennafrídaginn 24. október 1975 hefði ratað á síður Munins á því herrans ári. Sú varð þó ekki raunin þar eð síðasta tölublað ársins hafði komið út um vorið og næsta tölublað kom ekki fyrir augu almennings fyrr en tæpu ári síðar. Í það minnsta ein grein um efnið var skrifuð og ætluð til birtingar í skólablaðinu í kjölfar kvennafrídagsins. Greinin sú birtist í öðru tölublaði Munins árið 1976 undir yfirskriftinni Til hvers kvennafrí? Undir greinina skrifar Áhorfandi. Gefum Áhorfanda orðið.
---
Þessi grein var skrifuð í mikilli vandlætingu daginn eftir kvennafrídaginn svonefnda og átti að birtast í Munin fyrir áramót en þar sem Muninn kom ekki út fyrr en í febrúar varð ekki af því. Þó langt sé síðan þessi dagur var og flestir búnir að gleyma honum (konur líka) þá tel ég rétt að birta greinina fólki til umhugsunar.
Föstudaginn 24. okt. s.l. á degi SÞ lögðu íslenskar konur niður vinnu til að sýna hve mikilvægar þær væru og einnig til að sýna samstöðu í þessu máli.
Allt þjóðfélagið hálflamaðist þar eð langmestur hluti kvenna lagði niður vinnu þennan dag. Víða í skólum mættu námsmeyjar ekki í skólann til að sýna samstöðu sína með vinnandi konum þessa lands. Þennan margumrædda föstudag mættu örfáar stúlkur í MA. Með þessu voru hinar að sýna hvað þær væru mikilvægar, þó að ég hafi verið þeirrar skoðunar að þær gætu eyðilagt daginn fyrir kvenkennurum skólans með því að mæta ekki, en sleppum því.
Nokkrar framtakssamar dömur höfðu ákveðið baráttugöngu kl. tvö frá MA niður að Sjálfstæðishúsi þar sem aðalsamkoma bæjarkvenna var. Þegar ég mætti við Gamla skóla kl. rúmlega tvö til að taka þátt í göngunni voru mættar rúmlega þrjátíu skólastúlkur af yfir tvöhundruð kvenpersónum í skólanum, þvílík samstaða. Einhverjar hlupu upp á Heimavist til að smala kvenfólki í gönguna en þar voru allar í fríi og máttu ekki vera að neinu ekki einu sinni að taka þátt í baráttugöngu í tilefni frísins. Þegar að lokum var lagt af stað voru í göngunni þrjátíuogfimm til fjörtíu stelpur, sem voru í kvennafríi og tveir strákar töltu í humátt á eftir. Þegar niður að Sjálfstæðishúsi kom voru nokkrar stelpur úr MA mættar þar í viðbót við hinar baráttuglöðu, sem tóku þátt í göngunni, en þær voru ekki margar.
Í skólanum eru vel yfir tvöhundruð stelpur sennilega um tvö hundruðogþrjátíu. Þær tóku hér um bil allar þátt í kvennafríinu með því að mæta ekki í skólann og ástæðan var sú að þær voru að sýna öðrum konum samstöðu á deginum. Gott og vel en hvers vegna komu þær þá ekki í gönguna eða niður í Sjálfstæðishús til að sýna samstöðuna enn betur í verki? Já, hvers vegna? spyr sá sem ekki veit. Sumar utanbæjarstúlkur hafa sjálfsagt notað sér daginn til að komast heim og fá þannig lengra frí heima en þær eru ekki um tvöhundruð. Sumar bæjarstúlkur hafa ef til vill verið að hjálpa til á heimilum sínum meðan húsmóðirin var í kvennafríi en þær hafa varla verið margar því slík störf mátti engin kona vinna þennan dag þannig að ástæðan fyrir því að yfirgnæfandi meirihluti kvenna mætti ekki í skólann var leti en ekki samstaða með öðru kvenfólki. Þær tóku sér frí til að hafa það gott í því trausti að skólayfirvöld litu ekki á þetta sem "skróp". Svei þessari samstöðu. Sú frétt barst mér til eyrna að ein stelpa úr skólanum hefði unnið á veitingahúsi þennan merkilega dag, ekki er samstaða kvenna henni mikilvæg.
Ég lýk þessu með því að lýsa yfir hneykslun minni á þessari samstöðu menntaskólastúlkna með vinnandi konum þessa lands.
Áhorfandi.
Muninn 48. árgangur, 2. tbl.