John Lennon og Yoko Ono koma við sögu í skólablaði MA frá árunum 1981 og 2007
John Lennon og Yoko Ono koma við sögu í skólablaði MA frá árunum 1981 og 2007

 

Friðarboðskapur hjónanna John Lennon og Yoko Ono kemur fyrir í langri sögu Munins. Vorið 1981 birtist minningarljóð um Lennon í blaðinu og árið 2007 fengu blaðamenn Munins tækifæri til að leggja spurningar fyrir Yoko Ono.

Ljóðið er um margt merkilegt þar sem um samtímakveðskap er að ræða. Jafnvel má leiða líkum að því að ljóðið sé kveðið daginn eftir morðið á Lennon þann 8. desember árið 1980 ef marka má fyrstu ljóðlínu. Undirskrift höfundar ýtir enn frekar undir tilgátuna.

Þá er skemmtileg saga á bak við samtal sem nemendur í MA áttu við Yoko Ono í nóvember árið 2007. Hún var þá stödd hér á landi til að vera viðstödd vígslu Friðarsúlunnar í Viðey en útilistaverkið bjó hún til í minningu eiginmanns síns. Nemendur á vegum blaðsins fóru til Reykjavíkur í aðdraganda vígslunnar og freistuðu þess að ná sér í passa fyrir blaðamannafund með Yoko Ono. Það tókst og meðal þeirra sem listamaðurinn ræddi við voru fréttamenn frá BBC, Sky news og Munin.

 

In Memoriam – John Lennon

John, þú ert dauður, þig drap í gær maður,
með dágóðu skoti þig felldi í val.
Andláti þínu varð Alfaðir glaður
þig óðfluga setti í hásætissal.

Þú ólst upp hér forðum í óþverra city,
sem angað' af kolum og verksmiðjudaun.
Þú æfðir á gítar en, oh what a pity,
aðrir þér bölvuðu, hátt og á laun.

Þótt grannana angraði gutl þitt á strengi,
þú gegndir þeim engu, hélst áfram af þrá.
Seinna meir hittirðu herlega drengi
og hljómsveit þú reistir í tygjum við þá.

Og bráðlega lýðurinn Bítlana ræmdi,
að bragði við fætur þér heimurinn lá.
Hún Ella varð hrifin og orðu þig sæmdi,
(aðall í Bretlandi móðgaðist þá).

Þá hápunkti frægðar er náð, kemur hrörnun,
þið hélduð til Vesturheims, settust þar að.
Þið urðuð svo hrifnir af indverska hörnum,
að andríki og samhugur hrundi í spað.

En síst var þinn andi af auðæfum þrotinn,
þú átaldir styrjaldir, boðaðir frið.
Auðvitað varstu á endanum skotinn,
eins fór King Luther, sem grannt þekkjum við.

Þótt lífið sé kvatt, er ei lögmálið brotið,
en langt er nú síðan það óðinn oss gaf.
Þótt ævin sé þrotin, þá enginn fær skotið
orðstírinn þinn niðr'í gleymskunnar haf.

                                                    K.S.S. '80.

 

Mánudaginn 8.október ákváðum við að skrópa einn dag í skólanum og fara til Reykjavíkur og sjá þessa súlu og höfðum það fast í huga að við ætluðum að reyna að verða á vegi Bítilsins Ringo Starr. En af einhverjum völdum ætluðum við að prófa að taka þetta skrefinu lengra og reyna að verða okkur útum blaðamannapassa fyrir blaðamannafundinn þar sem Yoko Ono sat fyrir svörum. Eftir nokkrar símhringingar hingað og þangað tókst okkur á einhvern hátt að útvega passa. Fórum við þá á stundinni hoppandi til Sigurlaugar Önnu og gaf hún okkur um leið frjálsa mætingu fyrir næsta dag. Um leið fórum við í það að reyna að finna okkur far suður en tókst það frekar treglega. Klukkutíma fyrir brottför síðustu vélar gripum við til þess ráðs að hoppa suður fyrir blaðamannfundinn sem var næsta dag. Við hentum okkur þá í fínu fötin og skutumst niðrá flugvöll. Þegar við stigum inní vél tókum við eftir landsþekktum samferðamanni, sem settist svo við hlið okkar, sjálfum Ómari Ragnarssyni. Við gripum upptökutækið okkar og spurðum hann útí helstu ádeilumál sem hafa verið á baugi undanfarið og verður það birt síðar í blaðinu. Þriðjudaginn 9. október rifum við okkur á fætur klukkan 6, gerðum okkur klára og tókum leigubíl niður að Hafnahúsinu. Við höfðum enga hugmynd um hvenær blaðamannafundurinn færi fram þannig að við biðum fyrir utan hafnarhúsið í klukkutíma án þess að vita hvað væri á seyði. Eftir það fórum við á Kaffi París til að svala þorsta okkar og þar reyndum við að átta okkur á stöðu málanna. Við röltum niður að Borgarráðshúsinu og fengum þar upplýsingar hvenær fundurinn væri. Fyrir fundinn fórum við og keyptum skriffæri og blokk sem við svo týndum. Klukkan tólf hófst blaðamannafundurinn og þar voru sjónvarpsstöðvar á borð við BBC, Sky news og svo að sjálfsögðu Muninn. Svo mætti friðardívan Yoko Ono gallvösk og svaraði eftirfarandi spurningum Munins:

Hvaða ráðleggingar hefur þú fyrir yngri kynslóðina til að ná fram friði?

Mér finnst að yngri kynslóðin á Íslandi vera mjög klár. Mér finnst þeir vera viturri heldur en við vorum á sjöunda áratugnum. Við áttum margar fallegar hugmyndir en svo féllum í gildrur á milli. En núna hafið þið reynsluna frá okkur hvað virkar og virkar ekki.

Svo þú heldur að við höfum betri tækifæri til að ná heimsfriði?

Já ég held að það sé meiri möguleiki að ná fram heimsfriði í dag vegna betri samskipta, eins og internetið sem hefur gjörbreytt samskiptum manna. En við verðum að gera það, það er spurning um grundvallarlífsviðmið. Því ef við gerum það ekki verðum við ekki hérna.

Hvað eru mikilvægustu málin í dag sem koma að frið í heiminum?

Öll friðarhugmyndin er týnd, við hugsum lítið í dag um að skapa frið. Við hugsum of mikið um efnislega hluti, eins og peninga. Að vera góður hljómar voða lummó en það er mjög mikilvægt að endurskapa heilsu okkar, kærleika okkar og ást okkar. Það er aðalmarkmið mitt í dag. Það eru svo mörg stríð og svo mikið ofbeldi í gangi í heiminum í dag. Það er máltæki í kínversku sem segir að ef allir Kínverjar hoppi samtímis, þá hristist jörðin. Þannig að ef við óskum öll eftir friði, saman
og af ákafa, þá getum við gert það. Öll saman getum við breytt heiminum.


Heimildir: Muninn 53. árgangur, 3. tbl. og 81. árgangur, 1. tbl.