Jón Ágúst á Langa gangi í Gamla skóla
Jón Ágúst á Langa gangi í Gamla skóla

Jón Ágúst átti nýlega 34 starfsafmæli því hann hóf störf í MA þann 1. nóvember 1986. Hann hefur því næstlengstan starfsaldur allra í skólanum og segist vera kominn næst skólameistara á skólaspjaldinu. Tíminn tifar svo hratt áfram segir hann en að það segi sig sjálft að honum hefur líkað vel í starfinu. ,,Það er fjölbreytt, fullt af frábæru fólki og þess vegna hef ég verið svona lengi. Við kynnumst vel  ákveðnum hópi af krökkum sem verða vinir manns, einkum þeir sem tengjast félagslífinu.“

Fyrstu árin vann Jón alfarið við smíðar í skólanum en síðan fór hann að taka vaktir sem húsvörður. Skólahúsin standa honum nærri og hann ber hlýjar tilfinningar til þeirra. Uppáhaldsskólahús Jóns er Gamli skóli og segir hann það vera vegna byggingarstílsins og karakter hússins. Honum finnst notalegt að ganga einn um húsið að kvöldi til, jafnvel í sem minnstum ljósum. Hann segir að húsakostinum sé mjög vel við haldið og alltaf séu einhver spennandi verkefni og nú er það t.d. nýtt útivistarsvæði sem er í bígerð. ,,Húsvarðarstarfið er nokkuð léttara á COVID-tímum þar sem húsin eru opin styttra og ekki kvöld- og vaktopnanir. En á móti þá eru minni samskipti við nemendur, sem eru eitt það skemmtilegasta við starfið.“

Jón Ágúst er mikill lestrarhestur og les um 40-50 bækur á ári sem hann skráir hjá sér og gefur þeim einkunn. Hann segist vera alæta á bækur og lesi allt, mikið glæpasögur, ævisögur og skáldsögur. ,,Ég les frekar en að horfa á sjónvarpið.“

Jón ver líka miklum tíma með fjölskyldunni, börnum og barnabörnunum fimm, enda er það hún sem lífið snýst um. Einu sinni í mánuði er t.d. spilakvöld með 14 ára tvíburabarnabörnum, og spiluð allskonar spil. ,,Þá förum við kannski út að borða og spilum svo. Þetta er mjög skemmtilegt og krakkarnir hlakka til. Það er frekar vandamál að fá þau til að hætta að spila. Það er gaman og mikilvægt að byggja upp samband við barnabörnin.“

Svo er Jón Ágúst sannkallaður útvistarmaður sem stundar fjallgöngur, hjólreiðar og skíði. Hann hefur gengið á flest fjöll í Eyjafirði og uppáhaldið eru Súlur og Kerling. Herðubreið og Snæfell eru líka eftirminnileg fjöll. Hann fékk sér nýlega rafmagnsfjallahjól og vill helst hjóla ótroðnar slóðir. Hann er líka gamall keppnismaður á svigskíðum en hafði lagt þau á hilluna og snúið sér alfarið að gönguskíðum. Fyrir nokkrum árum fór hann hins vegar í fjallið með barnabörnunum og steig þá á svigskíði í fyrsta sinn í 40 ár eða svo og fann að þetta var þarna enn! Hann bíður því spenntur eftir að prófa nýju lyftuna.

Að lokum: Hvað er framundan: ,,Starfslokin! Ég er allavega farinn að sjá þau fyrir mér og bara njóta lífsins.“