- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Skólinn á stórt safn vínylplatna með fjölbreyttri tónlist. Útgáfa platnanna spannar áratugi. Í nokkrar vikur fyrir nýafstaðin jól settum við vel valdar safn- og jólaplötur undir nálina þar sem tónlistin ómaði í eyrum nemenda og starfsfólks í lok vinnuvikunnar. Vinna við að fara í gegnum safnið, flokka og lappa upp á lúin plötuumslög heldur áfram á nýja árinu. Plötuspilarinn hefur nú fengið sinn stað tímabundið í betri stofunni í Gamla skóla þar sem áður var heimili skólameistara og fjölskyldu hans. Þar situr starfsfólk að snæðingi, drekkur kaffið sitt og ræðir málin eða einfaldlega sest niður til að hvíla lúin bein. Já, í amstri dagsins getur verið gott að láta líða úr sér eitt andartak og setja plötu á fóninn. Hugmyndin er að hafa „rauðan þráð“ í plötuvali hvers mánaðar fram á vor. Nú þegar styttist í þorra er við hæfi að hefja leik á þjóðlegu þema. Meðal platna sem starfsfólki býðst að spila, sér og öðrum til yndisauka nú í janúar, má nefna Brot af því besta með Trúbrot, Eitt sumar á landinu bláa með tríóinu Þrjú á palli, Nærlífi sem Spilverk þjóðanna gaf út og Ég ætla heim... með Savanna tríóinu. Stuðmenn og karlakórar eru ekki langt undan og hugsanlegt að fleiri flytjendur bætist í hópinn áður en nýr mánuður gengur í garð, kannski Íslensk kjötsúpa ef hún leynist í einum kassanum.