Höskuldur Logi segir frá Þýskalandsferð sinni
Höskuldur Logi segir frá Þýskalandsferð sinni

Höskuldur Logi Hannesson 4. X kom í heimsókn í þýskutíma hjá 2. bekk A (á mála- og menningarbraut) fyrir stuttu til að segja frá verðlaunaferð sem hann fór í sl. sumar til Þýskalands. Höskuldur hafði veturinn áður tekið þátt í árlegri þýskuþraut og verið í 11. sæti og fengið bókarverðlaun. Um vorið var svo hringt í hann og honum boðin þessi verðlaunaferð þar sem þeir sem voru framar honum í röðinni höfðu ekki tök á því að fara. Hann sló til og sér ekki eftir því. Við tóku viðburðarríkar vikur í mörgum borgum Þýskalands, m.a. Köln, Bonn, München og Berlín og einnig dvöl hjá þýskri fjölskyldu í tvær vikur þar sem hann sótti skóla með fjölskyldumeðlimum.  Stúlka frá Framhaldsskólanum á Höfn varð í fyrsta sæti í þessari Þýskuþraut og voru þau mikið saman, sérstaklega í þeim verkefnum þegar kynna átti land og þjóð. Þau kynntust síðan krökkum hvaðanæva úr heiminum og var sérstaklega erfitt að kveðja alla nýju vinina að dvöl lokinni en þau eiga að sjálfsögðu heimboð út um allan heim. Höskuldur segist reyna að halda þýskunni við með því að hlusta mikið á þætti á youtube.

Mikill áhugi var hjá nemendum 2. A á frásögn Höskuldar og hefur kennari þeirra fulla trú á því að þau muni öll taka þátt í næstu Þýskuþraut sem verður 26. febrúar.

Margrét Kristín Jónsdóttir þýskukennari