Mynd: Margrét K. Jónsdóttir
Mynd: Margrét K. Jónsdóttir

Öllum nemendum og foreldrum var sent eftirfarandi bréf í dag. 

Kæru nemendur.

Takk fyrir góðan Sal fyrr í dag. Þið eruð öll upplýst um stöðu mála, samkomubannið og breytingar á skólastarfi sem taka gildi frá og með mánudegi. Það þýðir að nemendur mega ekki koma í skólann. Við munum öll leggjast á eitt, starfsfólk og nemendur, að hægt verði að halda uppi kennslu og námi svo að þessar fjórar vikur nýtist sem allra best. Ábyrgð ykkar á náminu mun því enn aukast og mikilvægt að stunda námið jafnt og þétt, því þetta er ekki frí og gert ráð fyrir að nemendur og kennarar haldi áfram vinnu sinni þótt þeir verði ekki í skólanum.

  • mikilvægt er að halda rútínu sem mest, vakna á sama tíma á morgnana og sinna námi yfir daginn
  • fylgjast vel með skilaboðum frá kennurum, sem munu eflaust nýta ýmsa miðla líkt og fyrr, Moodle, OneNote, talglærur, tölvupóst o.fl.
  • við viljum samt biðja ykkur um að sýna biðlund fram yfir helgi, kennarar þurfa tíma til að endurskoða ýmislegt og endurskipuleggja enda miklar breytingar þegar við getum ekki haft staðnám
  • margvísleg þjónusta verður áfram í boði þótt hún verði að vera rafræn eða í gegnum síma, t.d. ráðgjöf stoðteymis, aðstoð á bókasafni varðandi heimildir, aðstoð UT-fulltrúa og að sjálfsögðu er alltaf hægt að senda okkur stjórnendum póst og einnig á ma@ma.is
  • skólameistari fór yfir allskyns hollráð á Sal í dag sem enginn gleymir, svo sem að hreyfa sig reglulega, fylgjast hvert með öðru, sýna umhyggju og kærleik og lesa og fara eftir geðorðunum

Nú hefst nýr kafli í skólastarfi MA. Við gerum ráð fyrir að allir skili sér aftur í skólann þegar skólahald verður leyft að nýju þannig að við getum lokið skólaárinu með hefðbundnum hætti.

Hikið ekki við að hafa samband ef eitthvað er og gangi ykkur sem allra best.

Bestu kveðjur frá okkur stjórnendum; Alma, Jón Már, Sigurlaug Anna og Valdís