Tímalínan og önnur áhugaverð viðfangsefni verða í boði fyrir grunnskólanemendur á skólakynningu
Tímalínan og önnur áhugaverð viðfangsefni verða í boði fyrir grunnskólanemendur á skólakynningu

Fimmtudaginn 7. febrúar munu nemendur og starfsfólk MA kynna skólann og námið við hann fyrir nemendum 10. bekkjar í grunnskólum Akureyrar. Mörg áhugaverð viðfangsefni verða í boði fyrir gestina víðs vegar um skólann á meðan heimsókninni stendur.

Lilja Ákadóttir er fyrrverandi nemandi í MA og núverandi kennari við skólann. Hún hefur undirbúið komu krakkanna með skemmtilegri veggskreytingu sem hún kallar Einu sinni MA-ingur, ávallt MA-ingur. Um nokkurs konar tímalínu er að ræða sem búið er að koma fyrir á vegg í einni kennslustofunni. Þar geta krakkarnir séð dæmi um áfanga, áskoranir og annað sem kann að verða á vegi þeirra frá innritun í skólann og fram yfir útskrift.

En hver var kveikjan að verkefninu? Gefum Lilju orðið.

Þegar ég var beðin um að hjálpa til við þessar kynningar fór ég að velta fyrir mér af hverju nemendur ættu að velja MA en ekki einhvern annan skóla. Þar má ýmislegt nefna til sögunnar en mér finnst líka mikilvægt að hafa í huga að nemendur eru ekki bara að velja MA fyrir næstu 3 árin. Þeir eru að velja MA út lífið. Menntaskólinn verður hluti af manni og því er lífið eftir námið einnig mikilvægur punktur. Ég er svo ánægð í dag að hafa valið MA.