Ingibjörg Einarsdóttir, formaður dómnefndar greinir frá niðurstöðum nefndarinnar
Ingibjörg Einarsdóttir, formaður dómnefndar greinir frá niðurstöðum nefndarinnar

Miðvikudaginn 4. mars sl. fór Stóra upplestrarkeppnin fram í tuttugasta sinn en hún hefur farið fram í Kvosinni, Menntaskólanum á Akureyri, nær frá upphafi.  Það eru nemendur 7. bekkja grunnskóla bæjarins sem taka þátt í keppninni ár hvert. Áður hafa skólarnir haldið forkeppni og valið tvo fulltrúa sína, auk varamanns. Í fyrstu keppninni bar Vilhjálmur B Bragason sigur úr býtum en var í ár í hlutverki dómara. Vilhjálmur var um tíma enskukennari við MA, auk þess sem hann er þekktur fyrir að vera Vandræðaskáld og margt fleira.

Að þessu sinni voru skáld keppninnar Birkir Blær Ingólfsson og Jón Jónsson úr Vör. Lesið var í þremur umferðum og í fyrstu umferð fluttu þátttakendur svipmyndir úr bók Birkis Blæs, Stormsker, í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Jón úr Vör og í síðustu umferð valdi hver flytjandi sér ljóð til flutnings.

Upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar er á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, ár hvert en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar áherslu á að æfa upplestur og vanda framburð og huga vel að áherslum, túlkun og framkomu í ræðustóli.

Að venju voru nemendur sér og skólum sínum til mikils sóma þennan dag og dómarar hafa ekki verið öfundsverðir af því hlutskipti að velja einn fremur öðrum í verðlaunasæti. Eins og áður var það Ingibjörg Einarsdóttir sem var formaður dómnefndar en hún er einn af upphafsmönnum keppninnar, sem fór fyrst fram í Hafnarfirði fyrir tuttugu og fjórum árum.

Ómissandi þáttur hátíðarinnar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskólans á Akureyri. Að þessu sinni fengu gestir að hlusta á fiðlur og víólu, auk píanóleiks. Tónlistarflytjendum og kennurum þeirra eru færðar bestu þakkir fyrir allan þeirra undirbúning og æfingar sem skiluðu sér í vönduðum og góðum flutningi fyrir fullum sali áhorfenda.

Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar 2020  eru:

Sólon Sverrisson, Naustaskóla, 1. sæti
Hólmdís Rut Einarsdóttir, Lundarskóla, 2. sæti
Tinna Evudóttir, Glerárskóla, 3. sæti

Menntaskólinn á Akureyri þakkar aðstandendum upplestrarkeppninnar fyrir samstarfið, það er alltaf ánægjuefni að fá þessa ungu upplesara í hús.

 

Texti og upplýsingar eru að mestu frá Helgu Hauksdóttur frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar