Góður gestur kom í heimsókn í Menntaskólann á Akureyri, gamall nemadi og fyrrum formaður skólafélagins Hugins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Ráðherra gekk aðeins um skólann fyrst í fylgd Jóns Más Héðinssonar skólameistara og skoðaði sig um. Því næst var hringt á sal og húshljómsveit söngkeppnni MA tók tvö lög, fyrst söng Margrét Hildur Egilsdóttir og því næst Kristrún Jóhannesdóttir.  Þá tók Margrét Hugadóttir við og kynnti aðeins verkefnið Skólar á grænni grein. Á heimasíðu Landverndar segir:

Guðmundur Ingi og Jón Már

,,Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Ef skólinn nær markmiðum sínum fær hann að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.“

Því næst  sagði Guðmundur Ingi nokkur orð um umhverfisvernd og þakkaði meðal annars Kristínu Sigfúsdóttur líffræðikennara fyrir gott uppeldi hér í skólanum. Auk þess rifjaði hann upp atriði úr skólagöngunni t.d. þegar hann, sem böðull, datt niður tröppurnar í Kvosinni, fyrir framan heilan busabekk og reyndi að halda andlitinu (vera harður … en gat það svo ekki og skellihló). Að því loknu kom umhverfisnefnd upp á svið og tók við þriðja Grænfána skólans ásamt skólameistara.

Að lokum söng Birkir Blær Óðinsson eitt lag.

Myndir: Eyrún Huld Haraldsdóttir. Fleiri myndir á Facebook MA.