MA mætir MR í undanúrslitum Gettu betur. Mynd: RÚV
MA mætir MR í undanúrslitum Gettu betur. Mynd: RÚV

Í kvöld etur Menntaskólinn á Akureyri kappi við Menntaskólann í Reykjavík í undanúrslitum Gettu betur. Um fyrri undanúrslitaviðureign er að ræða. Hin seinni fer fram að viku liðinni þar sem Kvennaskólinn í Reykjavík mætir Fjölbrautaskóla Suðurlands. Úrslitaviðureignin fer fram föstudaginn 15. mars.

Lið MA á von á góðum stuðningi í kvöld í Austurbæ þar sem viðureignin fer fram. Rúta fer frá Menntaskólanum í dag suður til Reykjavíkur með 50 stuðningsmenn innanborðs. Þá er ekki ólíklegt að einhverjir úr hópi nemenda í 3. og 4. bekk, sem staddir eru í Reykjavík vegna starfs- og háskólakynninga, mæti til að hvetja sitt lið. Einnig munu nemendur safnast saman í Kvosinni í MA og fylgjast með útsendingunni.

Rimma MA og MR verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsending kl. 19:45. Við sendum baráttukveðjur suður yfir heiðar og segjum áfram MA!

Lið MA og MR